Ég er þakklát fyrir það traust sem ég hef fengið til að hafa áhrif í Garðabæ.
Að starfa fyrir sveitarfélag í gegnum pólitískt kjör er þjónustuhlutverk, stefnumótun og stjórnunarstarf. Ég vil sjá Garðabæ áfram sem nærsamfélag, með öflugum hverfum sem skapa val fyrir bæjarbúa um ólík búsetuform, umhverfi og aðstæður. Öll hverfi hafa góðar tengingar bæði í umferð og við friðland bæjarins.
Garðabær er náttúruperla sem við eigum að standa vörð um og efla aðgengi bæjarbúa að friðuðum svæðum sem hægt er að gera hóflega en með ýmsum hætti.
Garðabær er skólabær og á að vera það áfram. Ég vil sjá mannlífið blómstra enn frekar, s.s. með aðlaðandi miðbæ á Garðatorgi, nýju fjölnota íþróttahúsi sem styður við öfluga íþrótta- og tómstundastarfsemi, með menningu sem hluta af bæjarbragnum, bæjargarði og lýðræðislegum stjórnunarháttum.
Bærinn er heimilið okkar – okkur líður vel á heimilinu þegar allir heimilismenn/bæjarbúar hafa sína rödd og taka þátt í að gera íverustaðinn góðan.
Það er gott að vera Garðbæingur og ég vil gera það enn betra með störfum mínum fyrir íbúa bæjarins á næstu árum.