VIRÐUM NÁTTÚRUNA

Gott mannlíf þrífst í snyrtilegum og fallegum bæ, þar sem við virðum umhverfið og höfum greiðar leiðir að náttúrunni með öruggum stígum. Ég sé fyrir mér náttúrulegan göngustíg í Gálgahrauni, fallegan bæjargarð sem áningar- og mannlífssvæði, auknar tengingar hverfa og náttúru með stígum, fallegri skólalóðir og opin svæði.

Við getum gert betur í því að allt yfirbragð bæjarins sé snyrtilegt og beri vott um natni og ábyrgð gagnvart umhverfi og mannlífi. Bærinn er heimili okkar – okkur líður vel á heimilinu þegar það er hugsað vel um það og allir heimilismenn/bæjarbúar hafa sitt hlutverk í þeim efnum..

Náttúruparadís
Garðabær er náttúruparadís en ekkert annað sveitarfélag er með jafn mikið af friðlýstum svæðum. Nálægð fjöru og upplands rammar inn bæinn auk þess sem græn svæði er að finna víða og mikilvægt er að varðveita þau og bæta aðgengi að þeim með náttúrulegum stígum. Ég tel að mikilvægt sé að hafa grænt svæði, eða leiksvæði, í hverju hverfi sem myndar tækifæri fyrir börn og fullorðna í hverfinu til að hittast og njóta útivistar. Í öllum hverfum er stutt í ósnortna náttúru.

Ég hef um langt skeið lagt mikla áherslu á útiveru, enda alin upp í sveit umkringd gjöfum náttúrunnar. Það er ómetanlegt að hafa nánd við náttúruna, geta fundið friðsældina í Heiðmörk, Gálgahrauni, Álftanesinu eða í kringum Vífilsstaðavatn, sem er mitt uppáhald. Hluti af lífsgæðum við búsetu í Garðabæ er góður aðgangur að ósnortinni náttúru, upplandi sem fjöruborði. Eins og New York stendur vörð um Central Park þarf Garðabær að standa vörð um náttúruna og friðuð svæði bæjarins. Rannsóknir sýna að útivera í ómanngerðri náttúru hefur jákvæð áhrif á andlega sem líkamlega heilsu okkar. Við endurheimtum styrk og ró í faðmi náttúrunnar. Á sama tíma eru streitusjúkdómar okkar helsta heilsuvá.

Stígar og aðgengi
Aðgengi að þeim þarf að vera gott og fyrihugað er að vinna að gerð fleiri stíga í Heiðmörk samkvæmt nýju deiliskipulagi Heiðmerkur sem eykur enn frekar útivistarmöguleika í þessari náttúruparadís. Vaxandi áhersla er á stíga sem samgöngumáta, göngu- og hjólastíga innan hverfa og milli hverfa í Garðabæ sem þurfa að virka vel. Þá þarf að vinna áfram að breikkun eða aðgreiningu göngu- og hjólastíga. Ég sé fyrir mér náttúrulegan göngustíg í Gálgahrauni sem myndar hring og tengir saman Álftanesið, Prýðahverfið, Garðaholt og Ásana sem eitt útivisvarsvæði. Þetta svæði er gríðarlega fallegt en illfært og göngustígar um slíkt svæði eru unnir út frá friðhelgi svæðisins.

Sjálfbærni og grænir hvatar
Að virða umhverfið, náttúruna og eigin heilsu er grundvallarábyrgð okkar sem byggjum nú jörðina. Um leið eru þetta þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. Fjöldi rannsókna sýnir hve nauðsynlegt er að snúa við neikvæðri þróun í umhverfismálum sem er klárlega forgangsverkefni sveitarfélaga sem og stofnana, fyrirtækja og einstaklinga. Eitt af lykilhlutverkum bæjarfélags er að axla umhverfisábyrgð  í eigin starfsemi sem og styðja við sterka umhverfisvitund bæjarbúa sem birtist t.d. í flokkun, vistvænum samgöngur, grænum hvötum og minnkandi sóun. Ný hverfi einkennast af umhverfisvænum sjónarmiðum og skilvirkum samgöngum. Þá erUrriðaholt með sérstöðu sem umhverfisvottað hverfi. Garðabær á að vera í fararbroddi á ýmsum sviðum í umhverfismálum og í nýrri umhverfisstefnu bæjarins er m.a. lögð áhersla á umhverfisfræðslu, vistvænar samgöngur, aukna flokkun og minnkun sorps, sjálfbæra þróun sem leiðarljós við skipulag byggðar og hönnun mannvirkja. Grænir hvatar, djúpgámar, aðgengi að umhverfisvænum orkugjöfum, hringrás heimila með lífrænan úrgang eru dæmi um tækifæri til að gera hér enn betur og þar viljum við sjá bæjarfélagið.

Bæjargarður
Bæjargarður Garðabæjar er skilgreint útivistarsvæði í hraunjaðrinum sem liggur sunnan við bæjarlækinn sem rennur við íþróttamiðstöðina Ásgarð. Bæjargarður á að mínu mati að vera ákveðinn miðpunktur í bæjarlífinu þar sem þægilegt er að hittast, gangandi eða hjólandi og njóta samveru og náttúru. Hér er klárlega tækifæri til að móta fallegt svæði sem mætir þörfum bæjarbúa á öllum aldri til útiveru og samvista.