ELDRI BORGARAR – FJÖLÞÆTT ÞJÓNUSTA

Eldri borgarar þurfa fjölbreyttari þjónustu, skilvirka heilsugæslu, öflugt félagslíf og stuðning við að búa heima óski þeir þess. Stækka þarf Jónshús og vinnan gegn einangrun. Endurhugsa og nútímavæða þarf hugtakið eldri borgari og alla þá þjónustu sem boðið er upp á fyrir þann aldurshóp í samvinnu við fulltrúa þess hóps.

Með bættri heilsu á efri árum er virkni okkar í samfélaginu meiri. Þeir sem skilgreindir eru sem eldri borgarar er stór og sundurleitur hópur með ólík viðhorf, vonir, væntingar og þarfir.

Við eldumst öll og það á að vera gott að eldast í Garðabæ og því fylgi ákveðið öryggi um þjónustu og lífsgæði. Þeir sem vilja búa heima hjá sé sem lengt eiga að fá öflugan stuðning til þess.

Við þurfum að huga sérstaklega að því hvernig bæjarfélagið getur stutt lífsgæði eldri borgara, s.s. aðgengi að heilsueflingu, öflugt félagslegt net og skilvirka þjónustu hugsanlega með snjalllausnum. Horfa þarf til stækkunnar Jónshúss og meta heilsueflingu sem bærinn styður nú við fyrir eldri borgra. 

Félagsleg einangrun er áskorun í nútímasamfélagi bæði fyrir unga og aldna. Ég vil sjá Garðabæ styðja við félagslegt net eldri borgara sem og annarra sem glíma við einangrun. Þetta má gera með samtali við þá sem um ræðir og tengingu kynslóða. Jafnvel getur verið nægilegt að styðja við sjálfsprottnar hugmyndir einstaklinganna. Hér sem í öðrum málefnum er mikilvægt að vinna með þeim sem nýta þjónustuna.