FESTA Í FJÁRMÁLUM

Festa varðandi áframhaldandi trausta fjármálastjórn er grundvöllur öflugrar starfsemi í bænum. Lágar skattaálögur á bæjarbúa og ráðvendni í fjármálum skapar bæjarbúum öryggi bæði varðandi stöðugleika í þjónustu og eigin afkomu.

Hagsýni í fjármálastjórn er alltaf grundvöllur öryggis og gæða, það þekkjum við öll hvort sem um er að ræða heimilið, fyrirtækjarekstur eða bæjarfélag. Að eiga fyrir rekstrinum, hafa borð fyrir báru, gæta að skuldaviðmiði og sjóðstreymi þekki ég vel úr rekstri eigin fyrirtækis. Það fylgir því mikil ábyrgð að fara með fjármuni bæjarbúa.

Lágar álögur á íbúa
Frá árinu 2014, þegar ég settist fyrst í bæjarstjórn, hefur álagningarprósenta fasteignaskatts á íbúðarhúsnæðis lækkað og er nú 0,179% sem er með því lægsta sem þekkist á landinu. Fasteignaverð húsnæðis hefur hins vegar hækkað í mörgum tilfellum sem eykur vissulega fasteignagjöld greiðanda en um leið verðmæti eignarinnar. Það skapar mikið fjárhagslegt öryggi að geta treyst því að eigin fasteign lækki ekki í verði, því slíkt þýðir umtalsverða rýrnun á eigin fjárhagsstöðu.

Komandi utan af landi þekki ég það að víða á landsbyggðinni rýrnar verð fasteigna í tengslum við brottflutning íbúa eða náttúruvá í nánasta umhverfi. Slíkum áskorunum stöndum við sem betur fer ekki frammi fyrir í Garðabæ – fremur hinu gagnstæða að bærinn er eftirsóttur til búsetu sem hækkar fasteignaverðið. Ég vil sjá álögur á íbúa og fyrirtæki í Garðabæ í lágmarki sem skapar íbúum og rekstraraðilum aukið frelsi og tækifæri.