Garðabær er heilsueflandi samfélag en líkamleg, andleg og félagsleg heilsa er grundvöllur farsældar og hamingju. Með þátttöku í slíku verkefni er Garðabær að skuldbinda sig til að leggja áherslu á að lýðheilsa íbúa sé höfð í fyrirrúmi við stefnumótun.
Áhersla er á aðgengi að hreyfingu, útivist, tækifæri til að hittast í gegnum félagsstarf o.fl. Hér má gera betur og skapa fleiri tækifæri til að auðga andlega, félagslega og líkamlega heilsu fyrir allan aldur.
Til dæmis með öflugum miðbæ, menningarmiðju, bæjargarði, fjölnota íþróttahúsi, stígum, áningarstöðum, úti líkamsræktartækjum og fleiru (sem ég nefni undir öðrum málaflokkum).
Forvarnarstarf er hluti af heilsueflandi samfélagi og er þá bæði átt við ungmenni sem og fullorðna einstaklinga þar sem hvatning til að lifa heilbrigðu lífi styrkir líkama og sál.
Forvarnavika hefur verið haldin árlega í Garðabæ síðustu ár og ég tel að við þurfum að auka áherslu á að grípa sem allra fyrst inn í erfiðleika ungmenna en snemmtæk inngrip hafa lengi einkennt áherslur í Garðabæ og hefur það reynst vel.