FJÖLBREYTT ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDASTARF FYRIR ALLA

Ég vil sjá fjölbreyttari tækifæri fyrir íbúa í íþrótta- og tómstundastarfi. Með nýju fjölnota íþróttahúsi skapast nýir möguleikar fyrir iðkendur, íþróttafélög og nýja fjölþætta starfsemi. Við eigum að leggja áherslu á að ungmenni og eldri borgarar finni tækifæri til heilsueflingar í bæjarfélaginu. Íþróttastarf þarf bæði að vera afreks- og þátttökumiðað, allir þurfa að geta fundið hreyfingu við sitt hæfi.

Hreyfing er okkur öllum nauðsynleg og tengist inn í lífsstíl og tómstundir margra. Það er jákvætt að hægt sé að finna tómstundir og hreyfingu við sitt hæfi í bæjarlandinu. Sumum henta keppnismiðaðar tómstundir á meðan aðrir kjósa samveruna í skáta- og æskulýðsstarfi, eða að sigla á vit ævintýranna, njóta sín í golfi, dansa eða reyna sig við taflborðið svo dæmi sé tekið.

Fjölþætt íþrótta- og tómstundastarf bætir mannlífið og styður við heilbrigt, gefandi og ánægjulegt samfélag. Með nýju fjölnota íþróttahúsi skapast aukin tækifæri fyrir iðkendur, íþróttafélög og nýja fjölþætta starfsemi.

Farsælt samstarf við frjáls félög er mikilvægt fyrir bæjarfélagið svo sem við Stjörnuna, Ungmennafélag Álftaness, Skátafélögin Vífil og Svani, Taflfélag Garðabæjar, hestamanna- og golffélög ásamt annarri félagsstarfsemi í íþróttum, tómstundum og menningu. Slíkt samstarf hefur forvarnagildi fyrir ungmenni, eflir mannlíf og heilbrigði í samfélaginu.

Ég vil sjá fjölbreytt tækifæri fyrir unga fólkið okkar til sjálfsræktar í skólunum, íþrótta- og tómstundastarfi og við menningarupplifun. Rannsóknir segja okkur að það hefur forvarnagildi að ungt fólk sé í skipulögðum tómstundum fram yfir unglingsárin. Hér þarf sérstaklega að horfa til einstaklinga sem búa við fatlanir eða skerðingar, slæman efnahag eða erfiðar aðstæður.