MENNTUN; TÆKNI – FÆRNI – VELLÍÐAN

Garðabær á með afgerandi hætti að vera skólabær í fremstu röð með áherslu á metnaðarfullt fagfólk, val nemenda um skóla, ungbarnaleikskóla, aðlaðandi vinnuumhverfi, ólík rekstrarform og öflugan þróunarsjóð. Ég vil sjá aukna tækni í kennsluháttum út frá styrkleikum nemenda t.d. með sýndarveruleika og vendikennslu, fjölbreyttar aðferðir í lestrarkennslu og aukna samvinnu milli skólastiga. Nemendur í Garðabæ eiga að þekkja eigin styrkleika, fá þjálfun í að tileinka sér samskiptafærni, læsi í víðri merkingu, slökun og hugleiðslu.

Skólamál
Lykilþáttur í góðu bæjarfélagi er öflugt skólastarf. Unga fólkið er framtíðin og okkar hlutverk er að búa þau sem best undir hana. Garðabær hefur verið og á að vera leiðandi og framsækinn menntabær með öflugan þróunarsjóð sem styrkir við starfsþróun og þróunarstarf á leik- og grunnskólastigi. Heilstæð þjónusta við börn frá eins árs aldri og öflug samvinna skólastiga skapar öryggi og samfellu fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Það er mikilvæg þjónusta fyrir barnafjölskyldur að fá leikskólapláss þegar barnið er eins árs gamalt. Það skapar öryggi varðandi vinnu foreldra, vellíðan barnsins og þar með hagsmuni fjölskyldunnar og samfélagsins. Þetta er mikilvæg sérstaða hjá Garðabæ og mun meiri þjónusta við barnafólk en í flestum sveitarfélögum i nágrenni okkar.

Öflugt þróunarstarf
Þróunarsjóður leik- og grunnskóla var stofnaður árið 2015 og hefur úthlutað yfir 100 milljónum til margvíslegra þróunarverkefna. Það er mat skólastjórnenda og fagfólks skólanna að sjóðurinn hafi skilað mikilli þróun, framsækni og fjölbreytni í skólastarfið. Menntadagur Garðabæjar hefur verið haldinn árlega síðan 2016 en þar kynna starfsmenn þróunarverkefni sín auk annarra faglegra kynninga sem tengjast skólastarfi. Tæknivætt, fjölbreytt og nútímalegt skólaumhvefi með öflugan tónlistarskóla er stór þáttur í starfsemi bæjarins. Í gegnum þróunarsjóð hefur verið lögð rík áhersla á vellíðan og sjálfsöryggi nemenda, nýsköpun, fjölbreytta kennsluhætti og læsi svo dæmi séu tekin. Fjölbreytt tækifæri til menntunar skapa leik- og grunnskólabörnum tækifæri til að finna námsumhverfi við sitt hæfi. Í Garðabæ er val um skóla óháð búsetu og skólar hvattir til að skapa sér sérstöðu og hafa gert það t.d. í gegnum sérstaka áherslu á útikennslu eða forritun og ýmis þróunarverkefni svo dæmi séu tekin. Starfsumhverfi skóla bæjarins þarf að vera aðlaðandi fyrir öfluga fagmenn á sviði mennta- og uppeldismála.

Færni á 21. öldinni
Skólastefna og skólastarf leggur áherslu á að efla þá færni ungmenna sem samfélagsþróun kallar eftir og þykir eftirsótt á 21. öldinni. Þetta á við bæði á leikskóla- og grunnskólastigi út frá aldri og þroska hverju sinni. Samkvæmt rannsóknum er mikilvægt að búa yfir góðri samskiptafærni og þrautseigju, eiga auðvelt með að vinna í hóp, hafa getu til að setja sig í spor annarra, greina og meta upplýsingar o.fl. Einnig er gott veganesti að átta sig á eigin áhuga, þörfum, skapgerð, geta slakað á og fundið hugarró í erli hversdagsins og áreitum samfélagsmiðla. Sem formaður skólanefndar grunnskóla kem ég nú að endurskoðun menntastefnu Garðabæjar. Þar erum við að móta áherslur sem miða að áframhaldandi framþróuninni og sérstöðunni í skólamálum. Stafrænar lausnir í kennslu og miðlun, vendikennsla, snjalltæki, forritun og fleira er vaxandi í kennsluháttum og mikilvægt er að bæjarfélagið nýti tæknina vel í því skyni að kennsluhættir séu fjölbreyttir og nútímalegir, snemmtæk aðstoð sé viðhöfð og tæknin notuð þegar um sérstaka aðstoð er að ræða og það á vel við.