NÚTÍMALEG ÞJÓNUSTA – STJÓRNSÝSLA

Verum nútímaleg og frumleg í þjónustu og áherslum. Við þurfum að hafa metnað og hugrekki til að vera í fararbroddi í snjalllausnum sem, fjölbreyttum rekstrarformum bæði í skólamálum og velferðarþjónustu, skipulags- og umhvefismálum.

Til að þjónustan og stjórnsýslan virki vel og íbúar hafi traust á henni þarf að bæði skilvirkni og virðingu. Öll viljum við búa í bæjarfélagi þar sem framsækni, mennska og ábyrgð er leiðarljós í áherslum og stjórnun.

 Í nútímasamfélagi erum við flest að vinna við einhvers konar þjónustu. Sá sem veitir þjónustu er sjálfur verkfærið sem miðlar til þjónustuþegans. Í störfum mínum sl. 30 ár hef ég veitt ungu fólki í grunn-, framhalds- og háskóla þjónustu, einnig fyrirtækjum, stjórnendum og starfsmönnum. En ekki síst bæjarbúum í Garðabæ sem bæjarfulltrúi, varaformaður bæjarráðs, formaður skólanefndar grunnskóla, forseti bæjarstjórnar (2015-2016), auk margra annarra starfa fyrir bæjarfélagið sl. átta ár. Áður var ég formaður Sjálfstæðisfélagsins í Garðabæ um árabil og formaður skólanefndar Tónlistarskólans í Garðabæ. 

Ólíkar þarfir
Við eigum sífellt að leita nýrra leiða til að auka gæði í þjónustu við bæjarbúa t.d. með samtali við þjónustuþega, rýnihópum og snjalllausnum. Slíkir lýðræðislegir stjórnarhættir styðja við lífsgæði og velferð bæjarbúa.  Þá þarf einnig að horfa til þeirra sem háðir eru þjónustu umfram aðra, svo sem börn og ungmenni, barnafjölskyldur, þeir sem eldri eru eða búa við skerðingar eða fatlanir. 

Bæjarfélag sem heldur vel utan um fólkið sitt er bæjarfélag þar sem gott er að búa. Þannig bæjarfélag er Garðabær en við höfum mörg sóknarfæri til að gera gott enn betra.