ÖRYGGI OG FRAMSÆKNI

Forsenda öflugs mannlífs er áframhaldandi stöðugleiki í fjármálastjórn, lágar álögur á íbúa og fyrirtæki og aukið gagnsæi í rekstri. Verum nútímaleg og frumleg í þjónustu og áherslum. Við þurfum að hafa metnað og hugrekki til að vera í fararbroddi í snjalllausnum, fjölbreyttum rekstrarformum bæði í skólamálum og velferðarþjónustu, skipulags- og umhvefismálum. Öll viljum við búa í bæjarfélagi þar sem framsækni, mennska og ábyrgð er leiðarljós í áherslum og stjórnun.

Festa varðandi áframhaldandi trausta fjármálastjórn er grundvöllur öflugrar starfsemi í bænum. Lágar skattaálögur á bæjarbúa og ráðvendni í fjármálum skapar bæjarbúum öryggi bæði varðandi stöðugleika í þjónustu og eigin afkomu. Frá árinu 2014, þegar ég settist fyrst í bæjarstjórn, hefur álagningarprósenta fasteignaskatts á íbúðarhúsnæðis lækkað og er nú 0,179% sem er með því lægsta sem þekkist á landinu. Fasteignaverð húsnæðis hefur hins vegar hækkað í mörgum tilfellum sem eykur vissulega fasteignagjöld greiðanda en um leið verðmæti eignarinnar. Það skapar mikið fjárhagslegt öryggi að geta treyst því að eigin fasteign lækki ekki í verði, því slíkt þýðir umtalsverða rýrnun á eigin fjárhagsstöðu. Komandi utan af landi þekki ég það að víða á landsbyggðinni rýrnar verð fasteigna í tengslum við brottflutning íbúa eða náttúruvá í nánasta umhverfi. Slíkum áskorunum stöndum við sem betur fer ekki frammi fyrir í Garðabæ – fremur hinu gagnstæða að bærinn er eftirsóttur til búsetu sem hækkar fasteignaverðið. Ég vil sjá álögur á íbúa og fyrirtæki í Garðabæ í lágmarki sem skapar íbúum og rekstraraðilum aukið frelsi og tækifæri.

Þjónusta
 Í nútímasamfélagi erum við flest að vinna við einhvers konar þjónustu. Sá sem veitir þjónustu er sjálfur verkfærið sem miðlar til þjónustuþegans. Virðing og gagnvirkni þarf að vera til staðar á milli þess sem veitir þjónustuna og þess sem þiggur hana. Í störfum mínum sl. 30 ár hef ég veitt ungu fólki í grunn-, framhalds- og háskóla þjónustu, einnig fyrirtækjum, stjórnendum og starfsmönnum. En ekki síst bæjarbúum í Garðabæ sem bæjarfulltrúi, varaformaður bæjarráðs, formaður skólanefndar grunnskóla, forseti bæjarstjórnar (2015-2016), auk margra annarra starfa fyrir bæjarfélagið sl. átta ár. Áður var ég formaður Sjálfstæðisfélagsins í Garðabæ um árabil og formaður skólanefndar Tónlistarskólans í Garðabæ. 

Ólíkar þarfir
Við eigum sífellt að leita nýrra leiða til að auka gæði í þjónustu við bæjarbúa t.d. með samtali við þjónustuþega, rýnihópum og snjalllausnum. Slíkir lýðræðislegir stjórnarhættir styðja við lífsgæði og velferð bæjarbúa.  Þá þarf einnig að horfa til þeirra sem háðir eru þjónustu umfram aðra, svo sem börn og ungmenni, barnafjölskyldur, þeir sem eldri eru eða búa við skerðingar eða fatlanir.  Bæjarfélag sem heldur vel utan um fólkið sitt er bæjarfélag þar sem gott er að búa. Þannig bæjarfélag er Garðabær en við höfum mörg sóknarfæri til að gera gott enn betra.