Ég er fædd og uppalin í Fnjóskadal í Þingeyjarsveit. Foreldrar mínir, þau Svanhildur og Jón voru bændur auk þess sem pabbi vann sem bifreiðastjóri um áratugaskeið. Þau voru bæði mjög virk í sveitarstjórnarmálum og mamma var fyrsta konan til að eiga sæti í hreppsnefnd í dalnum. Ég man vel hvað hún var mikill stuðningsmaður Vigdísar þegar hún bauð sig fram til forseta og held því fram að hún sé sjálf framsækin og mikill jafnréttissinni. Ég fór alltof ung í heimavistarskóla, aðeins átta ára gömul, sem ég mæli ekki með hvorki út frá minni reynslu, sem uppeldisfræðingur eða sem móðir.
Að öðru leyti átti ég góða æsku, lærði snemma að láta muna um mig í vinnu í sveitinni og ýmsum sumarstörfum eins og gengur með ungt fólk. Ég tengdist náttúrunni sterkum böndum og geri enn, var mikið á hestbaki og ólst upp með heilbrigðri fjölskyldu og ömmu og afa í túnfætinum.
Ég flutti svo til Akureyrar til að fara í Menntaskólann á Akureyri. Menntaskólaárin vou skemmtileg og mikil vinátta sem skapaðist þau ár og er enn til staðar í dag en okkar árangur er samheldinn og mætir vel á endurfundi stúdenta. Sem nýstúdent réð ég mig sem grunnskólakennara í Síðuskóla á Akureyri sem þá var nýr skóli á Akureyri. Síðan lá leiðin í Háskóla Íslands. Ég flutti suður, leigði húsnæði í Þingholtunum og lauk BA gráðu í uppeldis- og menntunarfræði auk kennsluréttinda.
Náms- og starfsráðgjafi við Fjölbrautaskólann í Garðabæ
Það var svo haustið 1989 eða strax eftir að ég lauk háskólanámi að ég réð mig, þá aðeins 24 ára gömul, sem náms- og starfsráðgjafa við Fjölbrautaskólann í Garðabæ. Þar starfaði ég í 13 ár eða til ársins 2002. Á þeim tíma lauk ég mastersgráðu í náms- og starfsráðgjöf.
Árin í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ voru skemmtileg og lærdómsrík. Auk þess að starfa sem náms- og starfsráðgjafi, kenndi ég félagsgreinar, kom að því að bera ábyrgð á félagslífi nemenda, tók þátt í stjórnunarstörfum og fleira.
Það átti einstaklega vel við mig að starfa með unga fólkinu í FG bæði í ráðgjöf og kennslu. Ég kynntist Garðabæ, skólakerfinu og innviðum samfélagsins vel í gegnum þetta starf. Það sem mér fannst dýrmætast í starfinu var þegar mér tókst að snerta þannig við nemanda að viðkomandi sá tilgang í náminu eða jafnvel með eigin lífi. Það er ómetanlegt að fá að vera vitni að því þegar ungmenni fer í gegnum áhugaleysi, vonleysi, sorg, veikindi eða aðra erfiðleika og missir þá tímabundið tiltrú á náminu eða eigin verðleikum – en stígur síðan inn í styrk sinn, fær aftur trú á eigin getu, finnur áhugann og eigin stefnu.
Mörg augnablik eru mér mjög minnisstæð frá þessum árum, sumir nemendur komu reglulega til mín í viðtal einu sinni í viku í langan tíma og á brautskráningardegi var sigurinn mikill og ég stolt af mínu fólki. Þessi reynsla og fræðin segja mér svo engum vafa er undirorpið hve mikilvægt er fyrir samfélag að veita ungu fólki athygli og rými. Skapa aðstæður þannig að það fái notið sín og hafi stuðningsnet þegar þörf er á því.
Við þurfum að gæta að sjálfsmynd unglinganna, skapa tækifæri til að allir geti sýnt hvað í þeim býr með heilbrigðum og viðurkenndum hætti. Hver og einn þarf að finna til sín, ekki með hroka eða yfirgangi – heldur upplifa eigið gildi; að þú sért mikilvægur einstaklingur og það sé hustað á það sem þú hefur til málanna að leggja.
Trúnaðarstörf og Fulbright styrkur
Á árum mínum í FG gegndi ég einnig ýmsum trúnaðarstörfum fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið og landlæknisembættið sem lúta m.a. að stefnumótun og forvörnum, s.s. verkefnisstjóri lýðheilsu- og forvarnaverkefna fyrir framhaldsskóla landsins. Þá sat ég einnig í stjórnum, s.s. stjórn Félags náms- og starfsráðgjafa, Kennarasambandsins o.fl.
Auk þess tók ég þátt í mörgum erlendum rannsóknarverkefnum á sviði menntamála og stjórnunar sem hafa hlotið viðurkenningar sem ,,best practice“ verkefni. Ég hlaut Fulbright styrk árið 1992. Fór þá til Californiu í Bandaríkjunum, fékk tækifæri til að starfa í Career Resources Development Center í San Fransisco auk þess að stunda nám í Berkeley háskólanum í Californiu.
Þá gaf ég út námsefni um lífsleikni sem gefið var út hjá Iðnú og notað á framhaldsskólastigi.
Fjölskyldan byggir í Garðabænum
Þegar ég hætti í FG árið 2002 var ég flutt í Garðabæ. Við hjónin, Þorsteinn Þorsteinsson fyrrv. skólameistari í FG giftum okkur árið 2001 og byggðum okkur hús í Ásahverfinu um síðustu aldamót. Það er mikil reynsla að byggja hús frá grunni, en við tókum bæði virkan þátt í þeirri vinnu sem líkja má við ansi mörg verkefni í lífinu. Að horfa á heildarmyndina, en gæta að hverju skrefi á leiðinni að lokamarkinu, fá aðila í verkið á réttum tíma og láta tímalínuna ganga vel upp.
Við hjónin eigum tvær dætur sem eru stolt okkar og gleðigjafar. Þorsteinn var ekkill þegar við tókum saman og átti fjögur börn. Þrjú þeirra voru uppkomin og komin með sínar fjölskyldur, en yngsta dóttir hans frá fyrra hjónabandi var á unglingsárum og bjó hjá okkur þar til hún hóf sambúð. Mér þykir afskaplega vænt um þau öll.
Við höfum átt dásamlegan tíma í Garðabæ sl. 20 ár en bæði starfað mun lengur í bænum. Ég man að þegar við vorum nýflutt í bæinn fannst mér svo heillandi þetta nærsamfélag sem Garðabær er og tengingarnar sem skapast við fólk vegna þess. Vissulega hefur bærinn stækkað frá þeim árum en þetta er eitt af einkennum Garðabæjar sem við eigum að mínu mati að halda í og styðja við með skipulagi og bæjarbrag. Það er svo gefandi að hitta fólk sem maður þekkir þegar maður skreppur út í búð, í kaffinu á 17. júní o.s.frv. Komandi úr sveitarsamfélaginu með viðkomu í Reykjavík í áratug fannst mér eins og ég væri komin ,,heim“ að finna mig í smærra samfélagi sem hafði þessi einkenni nærsamfélags. Þetta eigum við að halda í því þetta er dýrmætur félagsauður í bænum.
Móðurhlutverkið er mitt mikilvægasta hlutverk, ég reyni alltaf að gera mitt allra besta en um leið finnst manni að það sé alltaf hægt að gera betur. Þetta hlutverk er mikilvægast því enginn kemur í staðinn fyrir mann í þessu hlutverki og það skapar grunn fyrir börnin á svo mörgum sviðum. Enginn er fullkomið foreldri en að setja þetta hlutverk í forgang hefur skapað mér ákveðna sátt og ég vona að það hafi skapað dætrum mínum festu, ástríkt heimili, vissuna um að vera elskaðar nákvæmlega eins og þær eru og að við séum alltaf til staðar fyrir þær. Nú eru þær báðar frábærar ungar konur sem ég er afar stolt af. Ég er þakklát fyrir að búa við þær aðstæður að ég geti verið í nánd við dætur mínar fram á fullorðinsárin sem er ólíkt því sem ég sjálf ólst upp við í sveitinni. Við erum náin, heimakær og samheldin fjölskylda.
Notalegt hversdagslíf og útivist með mínu fólki er það besta. Saman höfum við skapað margar stórkostlegar minningar, bæði í daglegu lífi, með því að sækja fjölbreytta viðburði hérlendis og erlendis og upplifa ævintýraleg ferðalög. Við höfum alla tíð lagt áherslu á að vera dugleg að skapa ævintýri sem fjölskylda, ferðast og upplifa saman. Heimilið er samverustaður, við erum mikið fjölskyldufólk og félagslynd og höfum valið að hafa heimilið opið fyrir vinum.
Forstöðumaður Stúdentaþjónustu við Háskólann í Reykjavík
Ég hóf síðast störf við Háskólann í Reykjavík sem forstöðumaður Stúdentaþjónustu, en undir því sviði var þá náms- og starfsráðgjöf skólans, skiptinemar og atvinnuþjónusta.
Þetta var kraftmikill og lærdómsríkur tími, en háskólinn fór í gegnum miklar breytingar þau ár sem ég starfaði þar. Ég vann með þremur rektorum og á þessum árum fluttum við skólann úr Ofanleiti í Nauthólsvík.
Til að tryggja áframhaldandi góðan anda í nýju húsi man ég að við settum andrúmsloft í poka og gengum með milli húsanna! Svolítið skondin aðferð en táknræn og sýnir vel meðvitað viðhorf stjórnenda um hve mikilvægt er að byggja upp og halda í góðan starfsanda.
Meðan ég var að vinna í HR tók ég áfram þátt í fjölmörgum evrópskum rannsóknarverkefnum, sem hafa fengið viðurkenningar fyrir vinnu á sviði skólamála, brotthvarfs og velferðar ungmenna. Á þessum tíma gaf ég út bók um hópráðgjöf ásamt öðrum náms- og starfsráðgjöfum. Sú bók hefur verið gefin út á ensku, dönsku og sænsku og er notuð í fjölda skóla og kennd við háskóla.
Ég hef haldið fjölda námskeiða og erinda á ráðstefnum hérlendis og erlendis sem er mjög gefandi. Það er mikilvægt að víkka sjóndeildarhringinn, læra af öðrum sem gera vel og miðla eigin reynslu þar sem hún nýtist.
Stofnar eigið fyrirtæki í fræðslu og ráðgjöf
Ég hafði lengi verið með það í huga að stofna eigið fyrirtæki. Það var svo árið 2013 að ég stofnaði SHJ ráðgjöf sem sérhæfir sig í fræðslu fyrir fyrirtæki og vinnustaði, stjórnendaráðgjöf og stefnumótunarvinnu. Samskipti, vinnustaðamenning, samskiptasáttmálar, gæði í þjónustu, að takast á við álag, sáttamiðlun og úrlausn mála eru algeng viðfangsefni í minni vinnu á þessum vígstöðvum.
Það þarf ákveðið hugrekki til að stíga þetta skref en þarna ákvað ég að láta að þessu verða og hef aldrei sé eftir því. Nafnið SHJ ráðgjöf eru einfaldlega stafirnir mínir, en ég læt það einnig standa fyrir hugtökin; seigla, hugrekki, jafnvægi. Bæði lífið og fræðin hafa kennt mér að ef við ræktum með okkur styrkleika á þessum sviðum verður svo margt auðveldara. Þegar ég ákvað að stofna eigið fyrirtæki byrjaði ég á að kortleggja sérstöðu mína, hvað ég hafði fram að færa, í hverju minn árangur hefði legið hingað til og skilgreina þannig hvað ég hafði upp á að bjóða. Ég tengdi mig nokkrum sérfræðingum sem hafa unnið hjá mér sem verktakar en held fyrirtækinu smáu og skilvirku sem hefur ýmsa kosti.
Ég hef sérhæft mig í færniþáttum atvinnulífs á 21. öldinni í tengslum við þróun vinnumarkaðar og starfshæfni einstaklinga. Ég hef byggt upp faglegt tengslanet og þjónustað fjölda áhugaverðra fyrirtækja eins og Marel, Isavia, VSO, ráðuneyti, bankana, RÚV, sveitarfélög, tækni- og nýsköpunarfyrirtæki, menntastofnanir á öllum skólastigum o.fl. Einnig hef ég um árabil verið með námskeið fyrir hópa sem eru í starfsendurhæfingu hjá Virk og atvinnuleitendur hjá VMST, einkum háskólamenntaða atvinnuleitendur og unga atvinnuleitendur. Einstaklingum sem eru í þessari stöðu fer fjölgandi sem er ekki gott, hvorki fyrir einstaklingana sjálfa né heldur samfélagið. Því er mikilvægt að vinna með þessa stöðu og rýna ástæður að baki þessari þróun.
Þetta er skemmtilegt og fjölbreytt starf þar sem ég vinn að ólíkum málefnum dag hvern.
MBA nám í stjórnun og viðskiptum
Mér finnst mikilvægt að taka ábyrgð á því að viðhalda eigin þekkingu, vinna með viðhorfin og stækka sjóndeildarhringinn. Ég hef alltaf haft áhuga fyrir að bæta við mig þekkingu og skellti mér í MBA nám, sem er mastersnám í stjórnun og viðskiptum, og lauk því frá HÍ vorið 2017. Námið fjallar m.a. um stjórnun, fjármál og mannauðsmál og gaf mér mikilvæga faglega þekkingu auk þess sem það gaf mér vini sem fylgja mér.
Virkni í félagsmálum, formaður Sjálfstæðisfélagsins í Garðabæ
Virkni í félagsmálum hefur alltaf einkennt mig. Það skiptir máli að koma sínum sjónarmiðum á framfæri þar sem hægt er að vinna með hlutina. Ég tók virkan þátt í félagslífi þegar í grunn- og menntaskóla og hef t.d. verið í foreldrafélögum í Garðabæ. Ég var um árabil í stjórn Félags náms- og starfsráðgjafa, hef verið fulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytis og landlæknisembættisins í ýmsum stjórnum svo sem hjá Fjölsmiðjunni, Rannsóknum og greiningu, Jafningjafræðslunni og Áfengis- og vímuvarnaráði. Ég er félagi í Rótarýklúbbnum Hofi í Garðabæ sem er mjög gefandi, góður hópur og fjölbreytt fræðsla. Einnig er ég í Delta Kappa Gamma þar sem ég hefur sinnt formennsku.
Sveitarstjórnarmálin er þjónusta við bæjarbúa og ég hef mikinn áhuga á að leggja mitt af mörkum í því að gera gott bæjarfélag betra með áherslu á fagmennsku og góða tengingu við bæjarbúa.
Ég var formaður Sjálfstæðisfélagsins í Garðabæ um árabil. Þar starfaði ég með skemmtilegu og öflugu fólki og við gerðum ótal margt mikilvægt, en hlutverk félagsins er m.a. að skapa tengsl milli kjörinna fulltrúa og bæjarbúa. Á þessum árum átti félagið stórafmæli, við fórum í gegnum nokkrar vel heppnaðar kosningar. Félagið stóð fyrir og skiplagði hvatningarnámskeið fyrir allar konur í Garðabæ, kom á páskaeggjaleitinni fyrir börnin og við gáfum nokkrum sinnum út veglegar útgáfur af málgagni okkar, Görðum. Ég hef tekið virkan þátt í mörgum kosningum fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Bæjarfulltrúi, varaformaður bæjarráðs, formaður skólanefndar grunnskóla
Það var svo árið 2014 sem ég tók sæti sem bæjarfulltrúi í Garðabæ. Þá hafði ég verið
formaður skólanefndar Tónlistarskólans í Garðabæ kjörtímabilið áður.
Ég hef starfað með einstaklega sterkum og skemmtilegum hópi í bæjarstjórn og er þakklát fyrir það samstarf og góða samvinnu. Síðastliðin átta ár hef ég verið bæjarfulltrúi, varaformaður bæjaráðs, formaður skólanefndar, varamaður í stjórn Strætó bs. og síðar Sorpu bs. Veturinn 2015-2016 var æeg forseti bæjarstjórnar.
Á þessum árum hef ég komið að fjölda verkefna í bæjarmálunum, bæði með formlegum og óformlegum hætti s.s. stýrt nefnd um val á aðkomutákni bæjarins, starfað í nefndum og vinnuhópum um menningarhús í bænum, heilsueflandi bæjarfélag, endurskoðun ýmissa stefna sem snerta ungmenni, skólamál, lýðræðismál og forvarnir, lagt fram tillögur í bæjarstjórn, komið á verkefninu Betri Garðabær og fylgt eftir málum á ýmsum sviðum.
Það er gott að vera Garðbæingur
Ég er þakklát fyrir það traust sem ég hef fengið til að hafa áhrif í Garðabæ.
Að starfa fyrir sveitarfélag í gegnum pólitískt kjör er þjónustuhlutverk, stefnumótun og stjórnunarstarf. Ég vil sjá Garðabæ áfram sem nærsamfélag, með öflugum hverfum sem skapa val fyrir bæjarbúa um ólík búsetuform, umhverfi og aðstæður. Öll hverfi hafa góðar tengingar bæði í umferð og við friðland bæjarins.
Garðabær er náttúruperla sem við eigum að standa vörð um og efla aðgengi bæjarbúa að friðuðum svæðum sem hægt er að gefa hóflega en með ýmsum hætti.
Garðabær er skólabær og á að vera það áfram. Ég vil sjá mannlífið blómstra enn frekar, s.s.
með aðlaðandi miðbæ á Garðatorgi, nýju fjölnota íþróttahúsi sem styður við öfluga íþrótta- og tómstundastarfsemi, með menningu sem hluta af bæjarbragnum, bæjargarði og lýðræðislegum stjórnunarháttum.
Bærinn er heimilið okkar – okkur líður vel á heimilinu þegar allir heimilismenn/bæjarbúar hafa sína rödd og taka þátt í að gera íverustaðinn góðan.
Það er gott að vera Garðbæingur og ég vil gera það enn betra með störfum mínum fyrir íbúa bæjarins á næstu árum.