Helstu áherslur fyrir öflugra mannlíf

Mannlíf tengist öllum þáttum bæjarlífsins, rekstri sem bæjarbrag. Ég vil nýja nálgun sem eflir mannlíf í Garðabæ. Undir MÁLEFNUM í yfirlitinu hér á vefsíðunni má sjá nánar um málefnaáherslur mínar sem er stuttlega fjallað um hér:

Festa í fjármálum
Stöðugleiki í rekstrier grundvöllur öflugrar þjónustu og starfsemi. Hagsýni í fjármálastjórn er forsenda öryggis og gæða og gefur mikilvægt svigrúm til að lækka álögur á íbúa og fyrirtæki. Gagnsæi í fjármálum og lýðræðisleg aðkoma bæjarbúa að forgangsröðun er eðlileg krafa í nútíma stjórnun.

Aukið íbúalýðræði
Auka þarf samráð við bæjarbúa og hagsmunahópa s.s. ungmenni, fjölskyldufólk, eldra fólk,  íbúa hverfa í uppbyggingu, félaga- og áhugahópa; s.s. íþrótta-, tómstunda og menningarfélög; þá sem nýta sérstaka þjónustu o.s.frv. Samræður, rafræn samráðsgátt, rýnihópar og stöðumat eru leiðir til að tryggja góð tengsl við íbúa auk þess að efla verkefnið ,,Betri Garðabær“. Stjórnendur þurfa ætíð að vera tengdir við líf og væntingar bæjarbúa.

Aðlaðandi miðbær
Ég vil sjá Garðatorg sem öflugan og fallegan miðbæjarkjarna þar sem bæjarbúar sækja þjónustu og njóta samveru. Útfærslu á göngugötunni í samvinnu við hagsmunaaðila, t.d. með mathallarupplifun og fjölbreyttum smærri þjónustuaðilum skapar þjónustu- og mannlífsmiðju. Aðlaðandi miðpunktur bæjarlífs er mikilvægur þáttur í mannlífi og bæjarbrag.

Skóla- og fjölskyldubær
Garðabær á að vera skóla- og fjölskyldubær sem laðar að metnaðarfullt fagfólk sem starfar við góð skilyrði, býður fjölbreytt námsumhverfi, val um skóla, ungbarnaleikskóla, ólík rekstrarform og öflugan þróunarsjóð. Ég vil sjá aukna tækni í kennsluháttum, nemendur sem þekkja eigin styrkleika og áhugasvið og fá þjálfun í að takast á við áskoranir nútímasamfélags.

Mannvænt skipulag
Skipulag á að taka mið af fræðum, s.s. umhverfis- og náttúruvernd og umhverfissálfræði. Val um ólík búsetuform er mikilvægt; sum hverfi einkennast af þéttleika og nálægð við almenningssamgöngur, önnur eru lágreistari og dreifðari með nálægð við náttúruna. Huga þarf að sérstöðu hverfa, skilvirkum tengingum, sameiginlegum svæðum, auk þess að fá fleiri öflug fyrirtæki og þjónustuaðila í bæinn. Áhersla er á fjölbreyttar nútímalegar samgöngur, viðhald gatna og að setja Hafnarfjarðarveg í stokk.

Virðum náttúruna
Garðabær er náttúruparadís sem við virðum og njótum; friðland, stígar, bæjargarður og aðlaðandi útivistarsvæði auka lífsgæði. Leggjum áherslu á snyrtilegan og fallegan bæ, með umhverfisábyrgð, sjálfbærni og græna hvata að leiðarljósi. Aukum tengingar við náttúru með göngustígum, t.d. í Gálgahrauni.

Fjölbreytt íþrótta-, tómstunda og menningarstarf
Fjölþætt og metnaðarfullt  íþrótta- og tómstundastarf skapar tækifæri fyrir keppnis- og þátttökumiðaðar íþróttir, tómstundir og menningarstarf. Með nýju fjölnota íþróttahúsi skapast aukin tækifæri fyrir iðkendur, íþróttafélög og nýja starfsemi. Farsælt samstarf við grasrótina og frjáls félög er mikilvægt og skapar félagsauð, tækifæri íbúa til upplifana og samveru. 

Velferð ungmenna og eldri borgara
Efla þarf nýsköpun og fjölbreytni í þjónustu við eldra fólk, öflugt félagslíf og stækka þarf Jónshús. Velferðartækni sem styður sjálfstæða búsetu og auðveldar þjónustu, t.d. með skjáheimsóknum, tæknilæsinámskeiðum o.fl. Vinna þar sérstaklega með hagsmuni ungmenna, s.s. líðan í nútímasamfélagi og í kjölfar heimsfaraldurs, fjölbreytni íþrótta og tómstunda, ungmennahús, ungbarnaleikskóla og tækifæri til kaupa á húsnæði í bænum.

ÖFLUGRA MANNLÍF Í GARÐABÆ GERIR BÆINN BETRI!

Greinin birtist í Garðapóstinum 20. janúar 2022