Vertu með – hafðu áhrif á tækifærin í Garðabæ!

Garðabær er öflugt vaxandi sveitarfélag – bær tækifæra. Við búum við einstakar náttúruperlur, samheldið og metnaðarfullt samfélag og mannauðurinn er okkar stærsta auðlind. Ég er tilbúin til að leiða Garðabæ áfram sem framsækið samfélag þar sem vel er haldið utan um fjármálin, fólkið, náttúru og umhverfi.

Stöðugleiki í fjármálum
Stöðugleiki í fjármálumer grundvöllur öflugrar þjónustu. Hagsýni, hóflegar skuldir, lágar álögur og fyrsta flokks þjónusta hefur einkennt bæjarfélagið og á að gera það áfram. Gagnsæi og lýðræðisleg aðkoma bæjarbúa er eðlileg nútímakrafa.

Vinnum saman
Ég vinn með fólki fyrir fólk. Ég vil efla samtalið við íbúa, félaga- og áhugahópa, þjónustuþega og þá sem í hlut eiga. Samræður, rýnihópar og stöðumat eru leiðir til að tryggja góð tengsl. Ég ætla að sjá til þess að raddir ykkar, íbúana, eigi greiða leið til stjórnenda bæjarins.

Hjartað í Garðabæ
Garðatorg á að vera hjartað í Garðabæ og hverfin hvert með sína sérstöðu. Ég vil sjá nútímalega og lifandi útfærslu á torginu sem eykur grósku og bætir mannlífið. Sem dæmi má nefna mathallarstemningu, rými fyrir smærri þjónustu, verslun og listir.

Stolt af skólabænum
Sem formaður skólanefndar grunnskóla sl. átta ár er ég stolt af því að skv. nýrri Gallup könnun eru foreldrar grunnskólabarna í Garðabæ þeir ánægðustu. Tryggjum áfram þjónustu og mönnun á leikskólastigi, styðjum við ólík rekstrarform, tækniþróun í kennsluháttum og frumkvöðlastarf. Vellíðan og trú á eigin getu skapar nemendum tækifæri. Skólarnir okkar eiga alltaf að vera í fararbroddi á landsvísu.

Lífsgæði, skipulag og náttúra
Byggjum og skipuleggum fyrir fólk. Þétting byggðar má ekki vera of ríkjandi en er eðlileg í ákveðnum hverfum og við stofnbrautir. Þetta er ein leið fyrir ungt fólk til að geta keypt sína fyrstu íbúð í bænum. Álftanes er dýrmæt sveit í borg. Stöndum vörð um friðlandið og aðgengi til að njóta náttúrunnar. Bætum stígakerfi  t.d. með góðum tengingum við Miðgarð, Urriðaholt og Álftanes.

Fjölbreytt þjónusta við eldra fólk
Þjónusta við eldri íbúa þarf að vera fjölbreytt og sveigjanleg. Það styður við lífsgæði allrar fjölskyldunnar. Eflum félagslíf, tækifæri til heilsueflingar og velferðartækni sem styður við sjálfstæða búsetu og auðveldar þjónustu. Það á að vera best að eldast í Garðabæ.

Njótum; heilsa, íþróttir og menning
Lífið er léttara þegar heilsan er góð. Lýðheilsa byggir á hreyfingu, félagsskap og andlegri næringu. Byggjum enn frekar upp metnaðarfullt  íþrótta-, tómstunda- og menningarlíf. Farsælt samstarf við ykkur íbúana og félögin í bænum er mikilvægt því saman getum við aukið félagsauðinn í Garðabæ og tækifæri okkar allra til jákvæðra upplifana og samveru. 

Ég óska eftir stuðningi þínum í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ 5. mars.  

Sigríður Hulda Jónsdóttir
bæjarfulltrúi,
varaformaður bæjarráðs,
formaður skólanefndar

Greinin birt í Garðapóstinum 02.03.2022