Frábær miðbær og sveit í borg

Það er forgangsverkefni að ljúka Garðatorgi sem glæsilegum miðbæ. Bjóða blandað búsetuform og öflugar tengingar við hverfi og náttúru. Hér má t.d. horfa til Álftaness sem varðveitir sveit í borg og Urriðaholts sem þarf að tengja betur með öruggum stígum.

Garðatorg
Nú er komið að því að horfa á miðbæinn í heild sinni. Endurhugsa og efla yfirbyggðu svæðin og tengja saman kjarna miðbæjarins. Grunnhönnun yfirbyggðu svæðanna skapar marga möguleika og þar eru nú glæsilegar verslanir og öflugir þjónustuaðilar. Ég sé fyrir mér útfærslu í samvinnu við hagsmunaaðila sem skapar aðlaðandi og lifandi svæði t.d. mathöll, fjölbreytta þjónustu smærri fyrirtækja, menningarmiðju og afþreyingu. Yfirbyggða bókasafnstorgið gæti t.d. verið grænt svæði með suðrænum blæ, uppákomum og listsýningum. Bæjarstjórn gæti fundað á torginu og stjórnsýslan átt þar opinn samstarfsvettvang við bæjarbúa.

Aðkoman á að vera falleg og upplifun af heimsókn í miðbæinn jákvæð. Í lýðræðisverkefninu ,,Betri Garðabær“ kom hugmynd um gosbrunn t.d. á Garðatorgi. Sú hugmynd hlaut kosningu og er í vinnslu. Setjum þetta í framkvæmd strax á þessu ári. Hvernig vilja bæjarbúar annars sjá Garðatorg? Hugmyndasamkeppni um framtíð miðbæjarins er góð leið til þess að sjá betur tækifærin sem eru möguleg.

Miðbær Garðabæjar er orðinn mjög eftirsóknarverður fyrir fólk og fyrirtæki. Sem bæjarfulltrúi lagði ég fyrir nokkru fram tillögu sem var samþykkt í bæjarstjórn og fól í sér samtal bæjaryfirvalda við hagsmunaaðila á Garðatorgi. Ég hef skrifað greinar um torgið og hvatt bæjarbúa til að sækja þangað verslun og þjónustu enda er það okkar að gera miðbæinn að því aðdráttarafli sem hann getur orðið.

Mannvænt skipulag og val um búsetuform
Skipulagsmál og mannvirki eru fyrir fólk og eiga því að taka mið af þörfum okkar, umhverfis- og náttúruvernd. Með nýjum hverfum eflum við blandað búsetuform, fjölbreytt hverfi þar sem fólk vill lifa, leika og starfa. Sum hverfi einkennast af þéttleika og nálægð við almenningssamgöngur, önnur eru lágreistari og dreifðari í snertingu við náttúruna. Þetta  einkennir bæinn okkar og skapar valfrelsi. Leita þarf leiða til þess að ungt fólk geti keypt sína fyrstu íbúð í Garðabæ og eldra fólk geti búið heima með stuðningi ef það óskar þess.

Hvert hverfi í Garðabæ hefur sinn sjarma og sérstöðu. Álftanes er að mínu mati dásamleg sveit í borg og Urriðaholtið er að verða eitt mest spennandi hverfi höfuðborgarsvæðisins. Öll hverfi eiga að búa yfir góðum  útisvæðum og skilvirkum tengingum. Samgöngur eiga að vera nútímalegar, svo og ljósastýringar og lýsing. Hafnafjarðarvegur á að fara í stokk og götur bæjarins að þróast í takti við samgönguvenjur og mannlíf. Í Garðabæ á að vera þægilegt að hjóla eða ganga milli svæða og njóta náttúru.

Sigríður Hulda Jónsdóttir
bæjarfulltrúi,
varaformaður bæjarráðs og
formaður skólanefndar

Birt í Garðapóstinum 10.02.2022