Öruggt og eftirsóknarvert að eldast í Garðabæ

Það er ekki spurning að sveitarfélagið okkar, Garðabær, á að vera í fararbroddi hvað varðar búsetuskilyrði, lífsgæði og líðan eldri íbúa. Það er því eitt af markmiðum mínum með framboði í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins að fá tækifæri til að vinna markvisst að öruggri og vandaðri þjónustu fyrir þann fjölbreytta hóp bæjarbúa sem kominn er á efri ár.

Við eldumst öll og hljótum því að vilja að sveitarfélagið okkar sé spennandi búsetukostur fyrir þá sem lokið hafa störfum. Eldra fólkið sem hefur lagt sitt af mörkum og verðskuldar þakklæti, virðingu, aðbúnað og þjónustu við hæfi. Rannsóknir sýna líka að það er mikilvægt á öllum æviskeiðum að hafa tilgang í lífinu, félagsskap og tækifæri til heilsueflingar.

Tölum saman og bætum þjónustuna
Eldri borgarar er hugtak sem þyrfti að endurskilgreina enda er nú víða talað um þriðja æviskeiðið, þegar fólk færir sig yfir á eftirlaun og fjórða æviskeiðið sem nær yfir þá sem elstir eru. Það er spennandi verkefni að bæta þjónustu sveitarfélagsins við fólk á báðum þessum æviskeiðum í samvinnu við þá sem í hlut eiga. Ég hlakka til þess verkefnis fái ég tækifæri til að sinna því. Í mínum huga er samtal við fólkið sem í hlut á grundvöllur góðra verka og mun ég því leggja áherslu á þétt tengsl og virkt samráð í þessu sambandi sem öðrum.

Verum öll með
Aðskilnaður kynslóða og jafnvel rof á milli þeirra er einkenni margra vestrænna samfélaga en þar sem hamingja mælist mest er samkennd kynslóða til staðar og allir hjálpast að. Það er spennandi að leita leiða til að auka þátttöku eldra fólks í samfélaginu enda sannarlega einstaklingar sem hafa mikið fram að færa. Við getum aukið tengslin milli allra kynslóða í Garðabæ til dæmis í gegnum tómstundir og skólastarf og stuðlað þannig að aukinni velsæld og hamingju í samfélaginu.

Öflug og nútímaleg heimaþjónusta
Aldraðir eru breiður hópur fólks með ólíkar þarfir, bæði einstaklingar með fulla færni og aðrir sem þurfa aðstoð, mismikla vegna sjúkdóma eða fötlunar. Markmiðið er að allir sem það kjósa geti búið sem lengst heima, verið sjálfstæðir í lífi og starfi með þá aðstoð sem þeir þurfa, hvort sem búið er í eigin húsnæði eða í einhvers konar þjónustuúrræði. Með mannvirðingu og mannréttindi að leiðarljósi er mikilvægt að mæta fólki þar sem það er statt hverju sinni á lífsleiðinni og að allir finni að þeir skipta máli.

Gegn einsemd
Einmanaleiki er heilsufarsvá sem bregðast þarf við. Ég vil leiða Garðabæ í forystu sveitarfélaga þar sem unnið er að því bæta lífsgæði og beita forvörnum gegn einmanaleika. Vönduð heimaþjónusta er grundvöllur þess að fólk geti búið lengur heima, en einnig þarf að sinna heilsueflingu og félagslegri næringu. Þeir sem eru frískari og þurfa litla sem enga þjónustu geta einnig verið einangraðir. Hér er hægt að bæta lífsgæði og beita forvörnum með ódýrum og einföldum hætti og horfa til nýsköpunar og tækni við veitingu þjónustunnar.

Heilsuþjónusta og -efling
Bæjarfélagið ætti að stuðla að fjölbreyttum rekstrarformum í heilbrigðisþjónustu og víkka hugtakið heilsugæsla út í takt við nútíma áherslur. Þar skiptir m.a. máli skjótur aðgangur íbúa að þjónustu, samfella í þjónustunni og að hugað sé í senn að líkamlegri- , andlegri- og félagslegri heilsu. Styðja þarf við lífsgæði eldri borgara með aðgengi að fjölbreyttri heilsueflingu, félagslífi og hreyfingu. Þar þarf að horfa til enn frekari nýtingar á Jónshúsi og skapa betri aðstöðu á Breiðumýri á Álftanesi.

Við getum sannarlega nýtt bæði nútímalega tækni og spjall yfir kaffibolla til að skapa saman fleiri leiðir til að það verði öruggt, farsælt og eftirsóknarvert að eldast í Garðabæ.

Sigríður Hulda Jónsdóttir
bæjarfulltrúi,
varaformaður bæjarráðs,
formaður skólanefndar

Greinin birt á MBL 03.03.2022