Framúrskarandi skólabær

Mennta- og skólamál eru mér sérstaklega hugleikin. Ég hef starfað í og með skólum í Garðabæ undanfarin 30 ár og finnst að Garðabær eigi með afgerandi hætti að vera skólabær í fremstu röð.

Að lögð sé áhersla á metnaðarfullt fagfólk, val nemenda um skóla, aðlaðandi vinnuumhverfi og öflugt þróunarstarf. Fjölbreytt og nútímalegt skólaumhverfi með öflugan tónlistarskóla er gríðarstór þáttur í starfsemi bæjarins.  

Garðabær í 1. sæti
Í nýrri könnun Gallup mælist ánægja foreldra grunnskólabarna í Garðabæ hæst. Þetta eru ánægjulegar niðurstöður sem hvetja okkur til að gera enn betur. Ég vil sjá aukna tækni í kennsluháttum tengda styrkleikum nemenda og samvinnu skólastiga. Nemendur í Garðabæ eiga að fá þjálfun í að tileinka sér samskiptafærni, samkennd og slökun.

Færni á 21. öldinni
Framtíðin kallar á getu til að setja sig í spor annarra, greina og meta upplýsingar. Einnig er mikilvægt að átta sig á eigin áhuga og þörfum og geta slakað á í erli hversdagsins. Við endurskoðun menntastefnu bæjarins eru mótaðar áherslur sem miða að áframhaldandi framþróun og sérstöðu í skólamálum með nútímalegum kennsluháttum og ekki síst snemmtækri aðstoð

Aðlaðandi skólabær
Í Garðabæ er val um skóla óháð búsetu og skólar hvattir til að skapa sér sérstöðu. Starfsumhverfi skóla á að vera aðlaðandi fyrir öflugt fagfólk. Sem formaður skólanefndar kom ég að því að stofna þróunarsjóð leik- og grunnskóla Garðabæjar árið 2015. Úthlutað hefur verið hátt í 200 milljónum til verkefna í skólum Garðabæjar sem má sjá á heimasíðu bæjarins. 90% starfsmanna skólanna telur að ávinningur sjóðsins sé mikill og endurspeglast það í öflugra skólastarfi og eftirsóttara starfsumhverfi.

Leikskólamál – áskoranir og tækifæri
Við leggjum áherslu á að bjóða eins árs börnum leikskólapláss, sveigjanlegt sumrfrí, val um leikskóla og inntöku barna oftar en einu sinni á ári. Allt er þetta þjónusta sem setur Garðabæ í fremstu röð en við getum þó gert betur. Í samvinnu við leikskólaumhverfið skulum við gera leikskóla í Garðabæ fyrsta val leikskólakennara og annars starfsfólks. Finnum nýjar leiðir að meira aðlaðandi vinnumhverfi, aukinni samvinnu, möguleikum á námsleyfi og sveigjanleika. Við viljum að börnum bjóðist leikskólapláss í nærumhverfinu. Það hefur því miður ekki verið staðan fyrir öll börn í Urriðaholti þar sem íbúaþróun varð önnur en spár sögðu til um. Nýr leikskóli er þó risinn nálægt, Mánahvoll á Vífilsstöðum, auk þess sem unnið er að því að reisa nýjan leikskóla í hverfinu.

Þakkir til nemenda, foreldra og kennara
Að lokum vil ég þakka nemendum, foreldrum en ekki síst kennurum og öðru starfsfólki skólanna fyrir þrautseigju og lausnamiðaða hugsun í gegnum heimsfaraldurinn. Að loknum heimfaraldri skulum við fara yfir málefni barna og ungmenna í samvinnu við Ungmennaráð og tryggja að unga fólkið komist aftur í rútínu og til virkni.

Sigríður Hulda Jónsdóttir,
bæjarfulltrúi,
varaformaður bæjarráðs,
formaður skólanefndar

Greinin birt í Garðapóstinum 16.02.2022