Að lifa á tímum heimsfaraldurs er kefjandi fyrir okkur öll. Við stöndum ítrekað frammi fyrir áskorunum, þurfum að endurskoða og breyta hvernig mögulegt er að gera hlutina, við hittum færri og lifum við óvissu. Ástandið breytir venjum, skapar einangrun, getur ýtt undir kvíða og ótta eins og óvissa gerir eðlilega.
Bjartsýni er í sálfræðinni skilgreind sem ein af mikilvægustu jákvæðu tilfinningunum. Sú trú og tilfinning að hlutirnir fari á besta veg, viðhorf sem snýst um jákvæðar væntingar til samfélagsins, annars fólks og eigin framtíðar. Í bjartsýni felst sú afstaða að maður hafi sjálfur að mestu leyti stjórn á eigin líðan, athöfnum og aðstæðum og geti náð markmiðum sínum þrátt fyrir hindranir. Bjartsýni er hagnýt, rannsóknir sýna að bjartsýnt viðhorf hjálpar fólki til að takast á við krefjandi aðstæður, nýta erfiða reynslu síðar í lífinu og auka þar með eigin færni og seiglu. Bjartsýni dregur úr kvíða og bætir líðan og heilsu.
Að skapa vellíðan og öryggi
Á krefjandi tímum er mikilvægt að efla allt sem gott er og skapar vellíðan og öryggi. Halda góðri rútínu, njóta þess góða í hversdagslífinu, stunda hreyfingu og útiveru, skapa tilbreytingu og setja tilhlökkunarefni á dagskrá. Á álagstímum skiptir miklu að sýna velvild; hugsa vel um sjálfan sig, sína nánustu og þá sem verða á vegi okkar. Jafnframt er mikilvægt að hugleiða eigin framgöngu; hvaða áhrif maður velur að hafa á samfélagið á viðkvæmum tímum. Það getur verið í umræðu, ásýnd á samfélagsmiðlum, hvernig við nálgumst aðra og málefni, hvort við sýnum umhyggju eða dómhörku o.s.frv.
Bjartsýni eykur hamingju
Bjartsýni er meðal þeirra þátta sem auka hamingju og velsæld og hefur þar með jákvæð áhrif á samfélagið. Með því að temja sér að leita uppi og taka eftir jákvæðum hliðum á öllum aðstæðum og atvikum ræktum við með okkur bjartsýni. Þetta kemur fram í rannsóknum á því hvað gerir einstaklingum, stofnunum og samfélögum mögulegt að þrífast og blómstra skv. jákvæðu sálfræðinni.
Ákvörðun um afstöðu
Við getum tekið ákvörðun um að breyta mataræði eða hreyfingarmynstri okkar. Á sama hátt getum við tekið ákvörðun um að við ætlum einungis að dvelja við og rækta með okkur hugsanir og afstöðu sem skapar tækifæri og öryggi. Þetta er ekki einfalt en allt sem er virkilega gefandi í lífinu er einnig krefjandi á einhverjum tímapunkti.
Jákvæður spírall
Jákvæður spírall (e. upward spiral) verður til í líðan okkar þegar við byggjum á meðvitaðan hátt upp jákvæða afstöðu og nálgun t.d. með bjartsýni, von og lausnamiðuðu hugarfari. Þegar við náum tökum á því að láta þessar tilfinningar einkenna framgöngu okkar og viðhorf, þá auka þær yfirvegun og víðsýni gagnvart fólki, málefnum og aðstæðum.
Bjartsýn vissa
Það er bjartsýn vissa að líta svo á að núverandi vandamál séu ekki varanleg og að framtíðin sé björt þrátt fyrir erfiðar kringumstæður. Bjartsýn og vongóð manneskja trúir því að það sem hún vill, muni nást sama hversu erfiðar aðstæðurnar eru. Jafnframt einkennir bjartsýnan einstakling sú afstaða að viðkomandi geti sjálf-/ur haft áhrif til að bæta aðstæður.
Að rækta bjartsýni – við getum öll lagt lið
Það er áskorun nú á tímum heimsfaraldurs fyrir einstaklinga, stofnanir og samfélög að efla og rækta bjartsýni. Öll getum við lagt lið. Segja má að nú sé mikilvægara en nokkru sinni fyrr að stýra sjálfum sér, fyrirækjum og félögum með þeim áherslum að hafa ekki aðeins dagleg hagnýt verkefni að leiðarljósi heldur einnig líðan og farsæld. Líðan og farsæld sjálfs síns, fjölskyldu, starfsmanna og alls mannauðs. Það má gera með því að vekja athygli á því sem vel gengur, vekja athygli á því sem þó er mögulegt í þröngum aðstæðum og einnig því jákvæða sem er í vonum okkar og efla þar með bjarsýni í samfélaginu.