Festa í fjármálum og aukið íbúalýðræði

Stöðugleiki í rekstri er grunnforsenda hagsældar. Þetta þekki ég vel úr eigin rekstri þar sem ég get einnig nýtt mér menntun mína sem MBA í viðskiptum og stjórnun.  Í Garðabæ er traust fjármálastjórn. Ekki má víkja frá áherslunni á stöðugleika og hagsýni í rekstri sem á áfram að vera lykiláhersla í stjórnun sveitarfélagsins.

Nútímastjórnun byggir á gegnsæi, samtali og lýðræðislegum stjórnarháttum sem skapa farveg milli íbúa og forgangsröðunar. Hér á eftir fjalla ég um sýn mína á fjármál bæjarfélagsins og aukið íbúalýðræði. Þetta er hluti af málefnaáherslum mínum sem sjá má hér í MÁLEFNUM.

Stöðugleiki og og hagsýni í rekstri
Öryggi og festa í fjármálum er grundvöllur öflugrar þjónustu í bæjarfélaginu, hvergi má því kvika frá kröfunni um stöðugleika í rekstri. Að eiga fyrir kostnaði, gæta að skuldaviðmiði og tryggja sjóðstreymi er lykilatriði. Mikil ábyrgð fylgir því að fara með fjármuni bæjarbúa og verja þeim á skynsamlegan og sanngjarnan hátt þannig að gæði þjónustu við íbúa aukist. Fjárhagsstaða Garðabæjar er sterk, skuldir hóflegar og langt undir viðmiðunarmörkum sveitarstjórnarlaga.

Lágar álögur á íbúa og fyrirtæki
Frá árinu 2014, þegar ég settist fyrst í bæjarstjórn, hefur álagningarprósenta fasteignaskatts á íbúðarhúsnæðis lækkað og er nú 0,179% sem er með því lægsta sem þekkist á landinu. Við eigum áfram að leggja höfuðáherslu á að veita góða þjónustu og sýna ráðdeild í rekstri. Þannig sköpum við mikilvægt tækifæri til að lækka álögur á íbúa og fyrirtæki. Í forsendum fjárhagsáætlunar fyrir árið 2022 er gert ráð fyrir að útsvarshlutfall verði áfram 13,7% sem er það lægsta sem þekkist meðal stærri sveitarfélaga landsins.

Framkvæmdir og þjónusta
Mestur hluti tekna sveitarfélaga fer í lögbundin verkefni en ætíð er svigrúm til forgangsröðunar, hagsýni og aðkomu íbúa. Stærstum hluta er varið í skólamál, félagslega þjónustu og velferðarmál, menningar- og íþróttamálaflokka. Á árinu 2022 er gert ráð fyrir framkvæmdum í Garðabæ að fjárhæð 4.326 m.kr. Stærstur hluti þeirra tengist leik- og grunnskóla í Urriðaholti. Sem formaður skólanefndar grunnskóla hef ég lagt ríka áherslur á framsækni á því sviði og jafnframt ábyrgan rekstur. Einnig áætlar Garðabær á þessu ári verulegar fjárhæðir til búsetukjarna fyrir fólk með fötlun, endurbóta á skólalóðum, skólahúsnæðis, opinna leiksvæða og íþróttavalla. Þá er áætlað að verja 1.295 m.kr. til gatnagerðar, hljóðvistar og umferðamála svo tæpt sé á því helsta.

Hagsmunir Garðabæjar
Undanfarna áratugi hafa ýmis verkefni færst frá ríki til sveitarfélaga Má þar nefna rekstur grunnskólanna, þjónustu við fólk með fötlun og félagsþjónustu aldraðra. Við viljum veita framúrskarandi þjónustu á þessum sem öðrum sviðum. Í því samhengi þarf þó einnig að tryggja hagsmuni Garðabæjar með því að vera sífellt vakandi fyrir því að fjármagn fylgi þjónustunni hvort sem litið er til framlags ríkisins eða Jöfnunarsjóðs.

Samtal og samráð við íbúa og hagsmunahópa
Sem stjórnendaráðgjafi byggi ég bæði á fræðum og reynslu varðandi það hve mikilvægt það er að eiga samtal – ekki síst þegar sjónarmið og hagsmunir eru ólík. Reglulegt samráð við bæjarbúa og ákveðna hagsmunahópa er nauðsynlegt, s.s. ungmenni, fjölskyldufólk, eldri borgara, íbúa hverfa sem eru í uppbyggingu, félaga-, íþrótta- og áhugahópa og þá sem nýta eða þurfa á sérstakri þjónustu að halda. Þannig virkjum við mannauðinn og eflum bæjarlífið. Rafræn samráðsgátt, rýnihópar og stöðumat eru leiðir nútíma stjórnanda til að vera í góðum tengslum við þá sem hann vinnur fyrir.

Lýðræðisverkefni ,,Betri Garðabær“
Á yfirstandandi kjörtímabili lagði ég, ásamt öðrum bæjarfulltrúa, fram tillögu um að bæjarstjórn Garðabæjar setti sér vinnureglur um íbúasamráð sem miða að því að efla lýðræðisleg vinnubrögð í sveitarfélaginu. Úr varð verkefnið Betri Garðabær. Markmið þess er að auka lífsgæði íbúa með því að setja hugmyndir þeirra og áherslur í framkvæmd. Ég tel rétt að skoða möguleika á því að hækka fjárhæðina í verkefninu Betri Garðabær þar sem íbúar velja sjálfir verkefnin. Jafnvel er unnt að útvíkka valkosti og fara með stærri verkefni í samráðsgátt og forgangsraða með íbúum.

Gegnsæi og traust – samráðsmenning
Hlutverk stjórmálamanna er m.a. að forgansraða verkefnum og tryggja fjármögnun þeirra. Við fjárhagsáætlunargerð getur íbúasamráð tryggt gegnsæi stjórnsýslunnar. Rannsóknir bæði hérlendis og erlendis sýna að sveitarstjórnir sem koma sér upp samráðsmenningu njóta meira trausts á meðal íbúa og þar ríkir meiri ánægja með þjónustu og stjórnun. Því horfi ég til frekari möguleika varðandi aðkomu bæjarbúa að forgangsröðun og ákvörðun verkefna.

Sigríður Hulda Jónsdóttir
bæjarfulltrúi, varaformaður bæjarráðs og formaður skólanefndar Garðabæjar

Birt í Garðapóstinum 27.01.2022