Betri Garðabær

Rafrænar kosningar í lýðræðisverkefninu Betri Garðabær hefjast á heimasíðu bæjarins þann 26. maí nk. og munu standa yfir til 7. júní.  Um er að ræða samráðsverkefni íbúa og stjórnsýslu um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri framkvæmda í nærumhverfi íbúa í Garðabæ.

Verkefnið byggir á tillögu sem undirrituð lögðu fram í bæjarstjórn vorið 2018. Þegar hefur 100 m.kr. verið varið til framkvæmda við 13 verkefni sem byggðu á hugmyndum íbúa og hlutu flest atkvæði við íbúakosningu árið 2019. Verkefnið byggir á þeirri hugmyndafræði að íbúar séu sérfræðingar í sínu nærumhverfi og  hafi áhrif á þróun þess.

Hugmyndasöfnun
Hugmyndasöfnun fyrir verkefnið Betri Garðabær fór öðru sinni fram fyrr í vetur þar sem óskað var eftir fjölbreyttum hugmyndum til að kjósa um í íbúakosningu. Virkilega gaman var að sjá hversu mikinn áhuga Garðbæingar sýndu verkefninu en um 250 hugmyndir bárust frá íbúum og yfir 1300 einstaklingar skráðu sig inn á hugmyndavefinn.  Á hugmyndavefnum var hægt að setja inn eigin hugmyndir, skoða aðrar skráðar hugmyndir, setja fram skoðun sína á þeim með því að ,,líka við” eða skrifa rök með eða á móti hugmyndum.

Rafrænar kosningar
Þær hugmyndir sem féllu undir skilyrði verkefnisins verða sendar áfram í rafræna íbúakosningu en alls verða 23 verkefni á rafræna kjörseðlinum í ár. Þau skilyrði sem unnið er út frá þegar verkefni eru metin til að vera gjaldgeng í rafræna kosningu eru t.d. kostnaður og framkvæmanleiki svo sem vegna áhrifa á  umhverfi, reglugerða o.fl.  Nokkur verkefni sem ekki fara í kosningu í ár eru t.d. ekki framkvæmanleg þar sem þau tengjast framkvæmdum á landi sem bæjarfélagið á ekki og getur því ekki skipulagt framkvæmdir á því svæði.  Heildarfjármagn til framkvæmdar verkefnanna er 100 milljónir og verða verkefnin framkvæmd á næstu tveimur árum. Þannig geta íbúar deilt 100 milljónum niður á þau verkefni sem þeir vilja sjá framkvæmd.

Gaman að sjá hugmyndir verða að veruleika
Þetta er í annað sinn sem lýðræðisverkefnið Betri Garðabær er framkvæmt, en það var gert í fyrsta skipti árið 2019. Þá hlutu 13 verkefni brautargengi í rafrænum kosningum, þessi verkefni má sjá víðs vegar um Garðabæ og eru þau flest merkt verkefninu Betri Garðabær. Þannig var eitt af verkefnunum sem kosið var áfram uppsetning aparólu við Hofsstaðaskóla. Rólan hefur vakið mikla lukku hjá nemendum skólans sem og öðrum börnum sem njóta hennar utan opnunartíma skólans. Þá voru settar upp sundfatavindur í Álftaneslaug sem hafa verið mikið notaðar af gestum ásamt því að skjólveggur við heitu pottana í Ásgarðslaug var settur upp. Fjölgun strætóskýla í Garðabæ og uppsetning áningastaða með bekkjum voru Garðbæingum einnig hugleikin árið 2019 og kosin áfram í íbúakosningunni en alls voru settir upp tíu bekkir og fjögur ný strætóskýli. Uppsetning sjónauka við Arnarnesvog var einnig eitt verkefnanna sem kosið var áfram og má nú njóta útsýnisins við voginn enn frekar. Þá má einnig nefna uppsetningu fræðsluskilta við stríðsminjar og ærslabelginn á Álftanesi. Allt eru þetta hugmyndir íbúa sem urðu að veruleika í verkefninu Betri Garðabær.

Við hvetjum Garðbæinga til að kynna sér málið á gardabaer.is og kjósa sínar uppáhalds hugmyndir í rafrænum kosingum.

Sigríður Hulda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður skólanefndar
Almar Guðmundsson, bæjarfulltrúi og formaður fjölskylduráðs