Sókn eftir faraldurinn

Síðustu tvö ár höfum við þurft að breyta venjum okkar og fórna lífsgæðum. Við höfum varið okkur; einangrað, hlustað á fréttir um ógnir við heilsu og efnahag.

Nú þarf að huga að virkni og velferð þeirra sem faraldurinn hefur lagst þungt á. Unga fólkið hefur ekki notið félagslífs á mótunarárum. Þau sem eldri eru sakna tilbreytingar og samskipta við fólkið sitt. Ljóst er að mikið hefur reynt á ákveðnar starfsstéttir og þá sem fyrir bjuggu við áskoranir. Þegar Covid lýkur þurfum við að vera tilbúin fyrir sókn því mannauðurinn er grundvöllur velferðar.

Ungt fólk og þeir sem eldri eru
Við höfum öll fundið hversu mikilvægt er að upplifa samveru með fjölskyldu og vinum, öryggi og rútínu, tilbreytingu og tilhlökkun. Sköpum tækifæri til að hittast, upplifa og njóta. Sveitarfélög og frjáls félagasamtök geta lagt lið með því að bæta aðgengi að viðburðum, heilsueflingu, menningu og samveru. Í Garðabæ þar sem ég er bæjarfulltrúi og formaður skólanefndar leggjum við mikla áherslu á að skóla-, íþrótta-, tómstunda- og menningarstarf sé í fremstu röð. Þar á sömuleiðis að vera gott að eldast.

Aðstæður og væntingar þessara aldurshópa hafa breyst undanfarin ár. Við þurfum að taka ákvörðun um að tryggja öflugt mannlíf; virkni og vellíðan eftir heimsfaraldur. Útfærum næstu skref í samvinnu við fólkið sjálft.

Vinnum með þeim sem nýta þjónustuna
Bæjarfélag á að skapa góð uppeldisskilyrði, veita nútímalega þjónustu og stuðla að lýðheilsu bæjarbúa. Ég vil sjá sveitarfélög styðja við félagslegt net eldri borgara og hlúa sérstaklega að ungu fólki. Í sumum tilfellum getur verið nægjanlegt að styðja við góðar hugmyndir. Ýmislegt má gera án mikils kostnaðar.

Förum úr (sótt)vörn í (gæða)sókn; tölum saman, vinnum saman – bætum mannlífið og tilveruna eftir krefjandi tíma.

Birt í Fréttablaðinu 03.02.2022