Garðabær leggur grunnskólanemendur til námsgögn

Bæjarráð hefur samþykkt að Garðabær verji 12,5 milljónum í að leggja grunnskólanemendum í Garðabæ til námsgögn.

Hér er átt við öll helstu námsgögn svo sem stílabækur, skriffæri, gráðuboga, möppur, límstifti, skæri, litasett og fleira. Nánari útfærslu er vísað til fræðslu- og menningarsviðs og grunnskólanna. Bæjarráð leggur áherslu á að hagræðingar verði gætt við útfærsluna og bestu tilboða leitað.

Með þessari framkvæmd er þjónusta við barnafólk í Garðabæ aukin. Markmið framkvæmdarinnar er fyrst og fremst að tryggja öllum grunnskólabörnum ritföng í góðum gæðum. Auk þess er lögð áhersla á að draga úr sóun þar sem samnýting ákveðinna námsgagna verður meiri svo sem lita, skæra og fleira. Heilt yfir felst í framkvæmdinni hagræðing þar sem fræðslu- og menningarsvið Garðabæjar í samvinnu við grunnskólana leitar bestu tilboða til að kaupa á einu bretti ritföng fyrir alla grunnskólana. Með slíkum magninnkaupum fæst hagkvæmara verð heldur en þegar keypt er fyrir hvern nemanda sérstaklega, auk þess sem vinnan við innkaupin fellur á færri hendur.

Aðstöðumunur barna í skyldunámi á ekki að líðast og með þessari framkvæmd er Garðabær að bregðast við ábendingum meðal annars frá Velferðarvaktinni og Barnaheill þar sem bent hefur verið á að námsgögn þurfi að vera hluti af gjaldfrjálsum grunnskóla til að tryggja jafna stöðu barna.

Við skólabyrjun er mikilvægt að umræðan á heimilinu sé jákvæð gagnvart því að skólinn sé að byrja, náminu sem framundan er og kennurum. Þetta er góður tími til að fá fram hugrenningar barnsins um skólann. Ef barnið er að skipta um skóla eða skólastig er þessi umræða sérstaklega mikilvæg og einnig ef barnið er að takast á við sérstakar áskoranir til dæmis námslega eða félagslega. ,,Hvernig get ég stutt þig sem best þannig að þér gangi vel í skólanum og líði vel?“ er góð spurning foreldra til barns. Munum að hlusta á barnið, ekki bara segja því hvernig okkur finnst að það eigi að haga sér. Skýr rammi, skipulag og forgangsröðun vandaðra vinnubragða er þó alltaf grunnur árangurs.

Sigríður Hulda Jónsdóttir, formaður skólanefndar grunnskóla Garðabæjar