Leiðsagnarnám

Ávinningur þróunarverkefna í grunnskólum Garðabæjar.

Þróunarsjóður grunnskóla Garðabæjar var stofnaður árið 2015 og hefur sl. 6 ár úthlutað yfir 100 milljónum til verkefna í grunnskólum Garðabæjar. Markmið sjóðsins er að stuðla að öflugu og framsæknu skólastarfi í bænum og gefa fagfólki tækifæri til að þróa fagsvið sitt í framsæknu stafi með börnum og ungmennum. Úthlutað hefur verið til yfir 100 verkefna sem snerta ýmsa fleti skólastarfsins auk hinna hefðbundnu námsgreina.

Árið 2018 var send spurningakönnun til fagfólks í grunnskólum bæjarins, til að fá álit þeirra á sjóðnum og áhrifum hans á skólastarfið. Samkvæmt þeirri könnun telja yfir 90% að áhrif sjóðsins á skólastarf í Garðabæ séu góð og sama hlutfall telur að styrkir sjóðsins auki tækifæri til starfsþróunar og framsækni i skólastarfi. Ávinningurinn sé öflugra skólastarf og fyrir nemendur og eftirsóttara starfsumhverfi.

Hér verður veitt innsýn í þróunarverkefni í Flataskóla um leiðsagnarnám
Leiðsagnarnám hefur verið hluti af stefnu Flataskóla í nokkur ár. Stjórnendur skólans ákváðu að setja af stað markvissar aðgerðir til að starfshættir skólans einkennist af leiðsagnarnámi og þeirri námsmenningu sem styður við þá aðferðafræði. Verkefnið er styrkt af þróunarsjóði grunnskóla Garðabæjar.

Námsmenning
Þegar leiðsagnarnám einkennir starfið í kennslustofunni sést að nemendur eru virkir þátttakendur í eigin námi, þeir vita til hvers er ætlast af þeim, hvert þeir stefna og hvernig þeir komast þangað. Markvisst skipulag kennslustunda, samræður um nám og vel grunduð endurgjöf eru lykilþættir í leiðsagnarnámi. Til að sú námsmenning geti einkennt kennslustofur þurfa kennarar hafa miklar væntingar til allra nemenda, nemendur verða að finna fyrir þeim væntingum og traust og hugarfar vaxtar ríkir í kennslustofunni.

Mistök eru lærdómstækifæri
Mistök eru viðurkennd sem hluti af lærdómsferli og skilgreind sem lærdómstækifæri. Ef nemendur hafa ekki náð valdi á tilteknu efni þýðir það að þeir þurfa að æfa sig meira, eða fara nýjar leiðir, til að öðlast leiknina/færnina og þannig mynda nýjar tengingar í heilastarfseminni.

Betri námsárangur
Erlendar rannsóknir hafa sýnt að í skólum þar sem leiðsagnarnám er einkennandi í starfsháttum verður námsárangur allra nemenda betri, vísa má í bókina Leiðsagnarnám, hvers vegna, hvernig, hvað? ( 2021) eftir Nönnu Kristínu Christiansen.

Viðhorf og starfshættir
Að innleiða leiðsagnarnám í skólastarfið felur í sér þróun á starfsháttum, einkum í breyttum viðhorfum og starfsháttum í kennslustofunni. Skólaárið 2021-2022 er Flataskóli að taka fyrstu skrefin í markvissri innleiðingu leiðsagnarnáms. Áhersla er lögð á; námsmenningu, hæfnimiðað nám, námsmarkmið og viðmið um árangur, hutdeild og virkni nemenda og endurgjöf.

Betri menntun og meiri ánægja
Markmiðið er að menntun nemenda verði árangursríkari og nemendur ánægðari í skólanum. Það er sýnilegt að nemendur verða meðvitaðri um eigin áhrif á nám sitt, læra um hvernig heilinn styrkist og nýjar tengingar myndast þegar þeir glíma við krefjandi verkefni.
Ávinningur nemenda
Ef vel tekst til munu nemendur verða:
• Meðvitaðri um eigið nám
• Virkari þátttakendur í sínu eigin námsferli
• Betri námsmenn
• Tilbúnari að glíma við viðfangsefni sem reyna á þá
Innleiðing leiðsagnarnáms mun halda áfram næstu árin og stefnt er að því að það einkenni starfið í öllum kennslustofum á næstu þremur til fimm árum. Innra mat skólans hefur verið tengt við innleiðingu leiðsagnarnáms til að skapa mælikvarða um árangur.

Niðurstaða
Leiðsagnarnám eykur ábyrgð nemenda á eigin námi, hugrekki til að læra af mistökum og getu til að vinna að eigin markmiðum. Slík þjálfun er hagnýt og fylgir þeim í verkefnum lífsins. Skólinn verður sterkara námssamfélag þar sem kennarar skólans hafa fengið tækifæri til að gera tilraunir, þróa og ígrunda eigin nálgun í námi og kennslu og þróa starf sitt áfram í smærri hópum undir stjórn jafningja.

Sigríður Hulda Jónsdóttir,
bæjarfulltrúi og formaður skólanefndar grunnskóla