Lesblindir nemendur

Ávinningur þróunarverkefna í grunnskólum Garðabæjar
Að efla sjálfstæði lesblindra nemenda með áherslu á valdeflingu og ígrundaða heildstæða nálgun.

Þróunarsjóður grunnskóla Garðabæjar var stofnaður árið 2015 og hefur sl. 6 ár úthlutað yfir 100 milljónum til verkefna í grunnskólum Garðabæjar. Markmið sjóðsins er að stuðla að öflugu og framsæknu skólastarfi í bænum og gefa fagfólki tækifæri til að þróa fagsvið sitt í framsæknu stafi með börnum og ungmennum. Úthlutað hefur verið til yfir 100 verkefna sem snerta ýmsa fleti skólastarfsins auk hinna hefðbundnu námsgreina. Árið 2018 var send spurningakönnun til fagfólks í grunnskólum bæjarins, til að fá álit þeirra á sjóðnum og áhrifum hans á skólastarfið. Samkvæmt þeirri könnun telja yfir 90% að áhrif sjóðsins á skólastarf í Garðabæ séu góð og sama hlutfall telur að styrkir sjóðsins auki tækifæri til starfsþróunar og framsækni i skólastarfi. Ávinningurinn sé öflugra skólastarf og fyrir nemendur og eftirsóttara starfsumhverfi. Hér verður veitt innsýn í þróunarverkefni í Sjálandsskóla um leiðir til að efla sjálfstæði, sjálfstraust og árangur nemenda sem glíma við sértæka lestrarerfiðleika.

Sjálandsskóli fékk úthlutað styrk vorið 2020
úr Þróunarsjóð grunnskóla Garðabæjar fyrir verkefnið Námsumhverfi lesblindra barna – Að efla sjálfstæði lesblindra barna í námi með áherslu á valdeflingu og ígrundaða heildstæða nálgun. Lokaskýrslu var skilað vorið 2021.

Valdefla lesblinda nemendur
Verkefnisstjórar eru kennsluráðgjafi í tölvu- og upplýsingatækni og tveir sérkennarar. Markmið verkefnisins felst í því að móta verkferla fyrir lesblinda nemendur í Sjálandsskóla. Setja þannig saman heildstæða áætlun hvernig valdefla megi lesblinda nemendur í námi og styrkja samfellu í nýtingu tækni bæði í skóla og heima, ásamt því að efla lestrarfærni. Tilgangur verkferlanna er að ýta undir sjálfstraust og færni nemenda til að bera kennsl á eigin hæfileika og þekkingu á þeirri tækni er hentar hverjum og einum. Strax í byrjun skólaárs 2020-2021 var farið í að leggja línur að framkvæmd á þróunarverkefninu. Frá september til október var unnið að samantekt um það vinnulag sem ríkti í skólanum og settar saman tillögur um endurbætur. Einnig voru valin/búin til verkefni sem þjálfuðu þá þætti sem til stóð að efla tæknilega ásamt því að ákveðið var hvaða nemendur tækju þátt í verkefninu.

Heimasíða og veftré
Í nóvember fór af stað vinna við heimasíðu sem var hugsuð sem afrakstur verkefnisins. Vefsíðan var stofnuð á léninu lestrartaekni.wordpress.com. Vefurinn er unnin í ókeypis útgáfu af WordPress. Teiknað var upp veftré með þremur megin undirsíðum; nemendur, foreldrar og kennarar.

Á nemendasíðunni voru búnar til nokkrar undirsíður, annars vegar leiðbeiningar fyrir nemendur um tæknileg atriði, t.d. að láta tölvuna lesa og skrifa fyrir sig. Hins vegar síður með verkefnum fyrir nemendur þar sem þjálfaðir eru þeir þættir sem unnið var með.

Á kennarasíðunni eru leiðbeiningar fyrir kennara með verkferlum um það sem tekur við eftir lesblindugreiningu.

Á foreldrasíðunni eru ýmis góð ráð og bjargir sem foreldrar og forráðamenn geta nýtt sér varðandi lestrarþjálfun og leiðbeiningar til að aðstoða börn sín heima.

Samstarf skóla, heimila og sérfræðinga með nemandanum
Fyrsti nemendahópurinn sem tók þátt í verkefninu hóf vinnu sína í nóvember árið 2020 og var virkur fram í janúar. Verkefnin voru endurmetin í febrúar og unnið áfram með þau verkefnin sem gengu vel. Nemendur voru þjálfaðir í skólanum á tölvurnar og samhliða því var unnið með fjölbreyttar leiðir í lestrarþjálfun. Þeir leystu verkefni sem kenndi þeim á tæknina. Til hliðsjónar var gátlisti yfir þá færni sem nemendurnir þyrftu að hafa náð til að geta nýtt sér tæknina í náminu inn í kennslustofunni. Unnið var í samstarfi við foreldrana og að lokum fengu þeir sendan stuttan spurningalista til að fá endurmat frá þeim um verkefnið. Haldnir voru fundir með lestrarráðgjafa við mat á verkefninu og hugmyndum ráðgjafans bætt við í verkefninu eftir þörfum. Eftir fundi með ráðgjafa verkefnisins í maí voru verkferlar kláraðir og er stefnan sett á að nýta þá áfram í skólanum. Þannig náum við að vinna að í markvissari og skipulagðari vinnu með nemendum sem greinast með lesblindu.

Niðurstaða
Tækniframfarir eru hraðar og mikilvægt er að skólakerfið nýti sér þær til að auka fjölbreytileika kennsluaðferða og styðja við námsferil nemenda. Trú á eigin getu er forsenda áhuga og árangurs og gæta þarf sérstaklega að því að nemendur sem glíma við sértæka námserfiðleika hafi sjálfstraust í námi sínu og það valdefli þá. Hér er dæmi um þróunarverkefni sem tengir vel saman heimili, skóla og sérfræðinga á ólíkum sviðum – með hagsmuni nemandans að leiðaljósi.

Sigríður Hulda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður skólanefndar grunnskóla