„Stolt af sterkum hópi metnaðarfullra sérfræðinga í skólunum okkar er mér efst í huga á Menntadegi Garðabæjar sem haldinn er nú í annað sinn“ segir Sigríður Hulda formaður skólanefndar grunnskóla þegar Garðapósturinn heyrði í henni.
Stolt af metnaði og fagmennsku kennara í Garðabæ
,,Í Garðabæ erum við með fjölda af fjölbreyttum og framsæknum þróunarverkefnum á leik- og grunnskólastigi. Þróunarsjóðurinn hefur síðast liðin þrjú ár úthlutað um 100 milljónum til leik- og grunnskóla og skapar kennurum og öðrum sérfræðingum skólanna aukna möguleika til að vinna á framsækin hátt á eigin fagsviði. Þróunarverkefnin efla því bæði sérfræðingana í skólum sem vinna verkefnin, námsupplifun nemenda og skólasamfélagið okkar. Mörg verkefni snúa að kennsluháttum og vellíðan nemenda á einn eða annan hátt, önnur til dæmis að tæknifærni og hvernig við nýtum tæknina svo sem við forritun eða til að auðvelda þeim sem glíma við lestrarörðugleika að ná árangri. Fjölbreytt skólastarf sem mætir ólíkum þörfum nemenda er lykill árangurs, nemandanum þarf að líða vel og kennarinn þarf að njóta sín og fá tækifæri til að rækta fagmennsku sína.“ segir Sigríður Hulda en í orðum hennar þegar hún sleit Menntadeginum kom fram þakklæti til allra starfsmanna skólanna í Garðabæ auk áherslu á að þróunarsjóðurinn gæfi kennurum og örðum sérfræðingum í skólakerfinu tækifæri til að rækta faglegt áhugasvið, trú á eigin getu í krefjandi starfsumhverfi og möguleikann til að láta til sín taka við að byggja upp sífellt öflugra skólasamfélag í Garðabæ.
Sigríður Hulda Jónsdóttir,
formaður skólanefndar grunnskóla