Janúar 2018

Í upphafi nýs árs er gott tilefni til að hugleiða hvaða innri og ytri þætti hafa afgerandi áhrif á lífsgæði okkar svo sem viðhorf, daglegar venjur, samskiptastíll, eigin hugsanir og athafnir.

Að beina athyglinni að því sem er þakkarvert er ein forsenda þess að upplifa ánægju. Í allri okkar orðræðu er jafn mikilvægt að þakka það sem vel er gert eins og að benda á það sem betur mætti fara.

Þakkir til starfsmanna í skólum Garðabæjar
Í skólunum okkar var unnið mikið og gott starf á liðnu ári og vil ég þakka öllum stjórnendum og starfsmönnum skólanna fyrir gott samstarf, fagmennsku og metnað á árinu. Ég hef oft sagt að ekkert sé mikilvægara en að barninu líði vel í skólanum og það vilji með glöðu geði fara í skólann að morgni. Þá verða morgunverkin og sporin út í daginn léttari fyrir alla í fjölskyldunni.

Vellíðan og trú á eigin getu
Vellíðan í skóla er grundvöllur námsárangurs. Trú á eigin getu er einnig grundvöllur árangurs og við foreldrarnir þurfum að rækta trú barna okkar á eigin styrkleika um leið og við gætum að reglum og viðmiðum sem skapa grunn samhygðar og öryggis.

Spennandi tímar framundan
Spennandi tímar eru framundan í skólamálum í Garðabæ. Urriðaholtsskóli er risinn efst á holtinu og byggingarframkvæmdir í fullum gangi. Þar hefst starfsemi á leikskólastigi í mars og grunnskólastigi í ágúst. Nýtt tölvuver er komið í notkun í Garðaskóla og unnið er að hönnun viðbyggingar við Álftanesskóla svo nokkur dæmi séu tekin.

Skapandi lausnamiðuð hugsun
Gott húsnæði er styðjandi þáttur í skólastarfi en innra starfið er vissulega það sem skólastarfið snýst um. Margir af okkar skólum taka þátt í einhverskonar erlendu þróunarstarfi og hefur til dæmis aðferðafræði sem kennd er við ,,design thinking“ eða skapandi hugsun verið að ryðja sér til rúms í skólastarfi. Þar er áherslan á lausnamiðaða nálgun með skapandi aðferðum. Segja má að þessi þróun sé hluti af þeirri nálgun sem einkennir áherslur samfélagsins á 21. öldinni þar sem sköpun, hugmyndaauðgi, samskiptafærni og lausnamiðuð hugsun eru þættir sem atvinnulífið metur mikils.

Fagmennska sem skilar sér
Þróunarsjóður grunnskóla í Garðabæ hefur úthlutað 75 milljónum til skólanna síðustu þrjú ár í margvísleg verkefni til að efla enn frekar þróun í innra starfi. Menntadagur Garðabæjar hefur verið haldinn tvö síðustu haust. Þar kynna kennarar og aðrir starfsmenn leik- og grunnskóla í bænum þróunarverkefnin og óhætt er að segja að það sé heillandi hversu fjölbreytt og kraftmikið þróunarstarfið í Garðabæ er. Það er mikið lán að fagmennska og metnaður einkennir skólastarfið hér og má sjá það endurspeglast í niðurstöðum samræmdra mælikvarða svo sem mælinga á líðan barna og ánægju foreldra með skólastarfið, niðurstöðum samræmdra prófa og PISA kannana. Skólastarf er lifandi starf sem stöðugt þarf að hlúa að og sífelld áskorun er að mæta breyttum þörfum og kröfum á hverjum tíma.

Kæru Garðbæingar!
Bestu þakkir fyrir góða samvinnu á liðnu ári, gerum nýtt ár gott ár, með jákvæðni, hugrekki og heiðarleika í farteskinu. Gefum einnig skapandi lausnamiðaðri hugsun gott rými!

Sigríður Hulda Jónsdóttir,
bæjarfulltrúi og formaður skólanefndar grunnskóla