Vilt þú kennara með réttindi fyrir barnið þitt?
Kennarar, sú starfsstétt sem hefur sterkust áhrif á velferð barna.
Grunnskólar Garðabæjar voru settir þriðjudaginn 22. ágúst 2017 og hefðbundið skólahald hófst miðvikudaginn 23. ágúst 2017. Nú eru ríflega 2500 grunnskólanemendur innritaðir í 1.- 10. bekk grunnskóla í Garðabæ sem er fjölgun frá því fyrir ári. Hofsstaðaskóli, Flataskóli og Garðaskóli eru fjölmennustu grunnskólarnir með um og yfir 500 nemendur hver.
Tenging leik- og grunnskóla
Tómstundaheimili skólanna voru opnuð viku áður en formlegt skólastarf hófst fyrir börn sem eru að hefja nám í fyrsta bekk, en í ár hefja um 210 sex ára börn skólagöngu í grunnskólum í Garðabæ. Þetta er annað árið sem um er að ræða slíkt samstarf leik- og grunnskóla en starfsfólk leikskóla fylgir börnunum eftir fyrstu dagana í nýju umhverfi. Það er val foreldra hvort börnin nýta sér þessa viku. Markmið þjónustunnar er að aðlögun barnanna að nýju skólastigi sé ánægjuleg og þau fái tækifæri til að kynnast skólaumhverfinu áður en hefðbundið skólahald hefst og eldri börnin koma í hús. Auk þess styður þetta verkefni við samfellu milli leik- og grunnskóla.
Símenntun kennara
Kennarastarfið er krefjandi fræði og stjórnunarstarf sem krefst sífelldrar endurmenntunar af hálfu kennarans þar sem nýjungar í kennsluháttum og námsefni eru stöðugar. Mikil vinna hefur átt sér stað í skólunum áður en til skólasetningar kemur. Nýafstaðið er til dæmis námskeið í leiðsagnarmati sem er sameiginlegt hjá öllu grunnskólunum bæjarins. Auk þess eru margvísleg námskeið í gangi í hverjum skóla fyrir sig sem snúa meðal annars að nýjungum í kennsluháttum, líðan og velferð nemenda.
Kreppa í kennarastétt
Sú alvarlega staða er komin upp hér á landi að almennt gengur verr að fá grunnskólakennara til starfa en áður. Nemendum í kennaranámi hefur undanfarin ár fækkað. Ef ekkert verður að gert er líklegt að þessi staða verði verri með hverju árinu. Flestar stöður í grunnskólum Garðabæjar eru þó mannaðar réttindakennurum. Þróunarsjóður grunnskóla Garðabæjar var stofnaður árið 2014 og síðan þá hefur verið úthlutað alls 75 milljónum til margvíslegar þróunarverkefna innan grunnskóla í Garðabæ. Markmið þróunarsjóðs er að styðja við nýjungar og þróunarstarf þannig að nemendur njóti góðs af og metnaðarfullir kennarar og aðrir sérfræðingar innan grunnskólanna fái tækifæri til að þróa starfshætti sína. Slík tækifæri laða að fagmenn sem vilja sífellt gera betur. Grunnskólar þurfa að vera eftirsóttir vinnustaðir sem laða til sín kraftmikla einstaklinga sem hafa ástríðu fyrir kennslu ungmenna.
Metum mikilvægt hlutverk kennara í þroska barnsins
Færa má rök fyrir því að engin starfsstétt hafi jafn mikil og mótandi áhrif á börn og kennarastéttin. Í tíu ára skyldunámi er það ekki bara námsefnið sem kennarinn miðlar til barnsins heldur viðhorf, samskiptamynstur og félagsfærni svo eitthvað sé nefnt. Kennarar eru sterkar fyrirmyndir.
Fjölbreytileiki með hagsmuni barnsins að leiðarljósi
Skólakerfið okkar er að mörgu leiti mjög sterkt. Fagleg umræða þarf sífellt að vera til staðar til að tryggja framsækið menntakerfi sem hefur velferð og þarfir nemenda í forgrunni í síbreytilegum heimi. Í námi mínu í uppeldis- og menntunarfræði og náms- og starfsráðgjöf var oft velt upp grundvallarspurningum á borð við: Hvað á að kenna á grunnskólastigi, hvers vegna á að kenna það og hvernig á að miðla því? Þetta eru spurning sem við þurfum stöðugt að spyrja okkur og alltaf með hagsmuni nemandans að leiðarljósi. Verum framsækin, festumst ekki í farinu þar sem ótti við ólíkar áherslur eða rekstrarform nærir einsleitni kerfisins. Nemendur eru ekki einsleitur hópur og skólakerfið á ekki að vera einsleitt kerfi, fremur fjölbreytt kerfi í þróun sem mætir þörfum nemenda. Fastheldni má ekki standa í vegi fyrir framförum. Rannsóknir sýna að félagslegur bakgrunnur barns er líklegur til að hafa áhrif á gengi þess í skóla og er þá einkum átt við viðhorf og stuðning foreldra til náms. Góður kennari áttar sig á stöðu nemenda sinna og kemur á móts við þarfir þeirra. Val um skóla þar sem kennsluaðferðir og rekstrarform er með misjöfnum hætti á að skapa nemandanum tækifæri til að vera í skóla sem hentar honum sem best og fjölbreytileikinn því í þágu barnsins. Læsi er annar grunnþáttur sem hefur mikil áhrif á gengi barns og líðan í skóla. Læsi hefur einnig áhrif á tækifæri einstaklingsins í lífsgöngunni allri. Grunnur að læsi er lagður í leikskóla og fyrstu bekkjum grunnskóla. Ólíkar leiðir í áherslum við lestrarkennslu eru þekktar svo og hversu sterk áhersla skólans er á að tengja foreldra við lestrarkennsluna. Það má gera til dæmis með námskeiðum fyrir foreldra og sterku sambandi skólans við þá meðan á lestrarkennslunni stendur eins og skólar í Garðabæ hafa lagt áherslu á.
Val um skóla í Garðabæ
Í Garðabæ hafa foreldrar/nemendur val um grunnskóla óháð búsetu. Garðabær rekur fimm grunnskóla og auk þess eru starfræktir tveir sjálfstætt starfandi skólar í bænum sem eru Barnaskóli Hjallastefnunnar og Alþjóðaskólinn. Börn búsett í Garðabæ greiða ekki skólagjöld í þessum skólum þar sem bærinn greiðir skólunum sama framlag með barni og þeim skólum sem reknir eru á vegum bæjarins. Val um grunnskóla á alltaf að vera barninu í hag og auka möguleika þess til að finna skólaform við hæfi.
Góður kennari og hvatar til góðra verka
Við þekkjum öll frábæra kennara sem sinna starfi sínu af fagmennsku og ástríðu þannig að nemendur hrífast með og þróa með sér jákvæð viðhorf og áhuga fyrir viðfangsefninu. Góðir kennarar eru margir – nákvæmlega eins og til dæmis góðir verkfræðingar eru margir. Það er réttlátt að góður starfsmaður fái að heyra að hann sé einstaklega hæfur og hljóti jafnvel einhverskonar umbun fyrir það. Auðvitað er hægt að skilgreina hvað felst í því að vera góður kennari þó það sé ekki gert út frá einkunnum nemenda. Einkunnir nemenda eru aðeins einn þáttur af mörgum í mati á hæfni, framförum og frammistöðu í skólaumhverfinu. Góður kennari og góður skóli er sá sem býr til virðisauka hjá nemandanum, það er, eflir hæfni og styrk viðkomandi þannig að lífsægði hans aukast. Skapar einstaklingnum aukið virði í víðri merkingu. Við mat á störfum kennara er eðlilegt að horfa til þeirra markmiða sem viðkomandi skóli setur sér varðandi starfið í víðu samhengi svo sem varðandi skólabrag, upplýsingamiðlun, kennsluhætti, samskipti, þróunarstarf, samstarf, kennslumat, jafningjamat o.fl. Ef við getum ekki metið hvað felst í því að vera góður kennari/starfsmaður, eru hvorki hvatar til góðra verka né mælikvarðar á vel unnin verk nægilega skýrir. Kennarastarfið er krefjandi og mikilvægt starf. Sterkir einstaklingar með brennandi hugsjónir þurfa að flykkjast í námið og halda áfram að fylla grunnskólana af fagmennsku og metnaði.
Góður kennari eykur trú nemanda á eigin getu
Trú á eigin getu er forsenda þess að nemandinn ná að nýta eigin styrkleika. Góður kennari vinnur með sýn nemanda á sjálfan sig sem námsmann eða vin sem hefur mikil áhrif á velgengi og stöðu viðkomandi á ungdómsárum. Góður kennari nær tökum á bekknum, skapar áhuga á námsefninu, heldur aga með jákvæðum hætti, les umhverfið og grípur inní atburðarás til að leysa mál. Góður kennari er svo margt fleira sem ekki verður rakið hér. Festumst ekki í því að geta ekki hrósað og metið vel unnin störf. Hvatar til góðra starfa eru mikilvægir í metnaðarfullu vinnuumhverfi. Þeir geta bæði verið hinir innri og ytri, svo sem einlægur áhugi fyrir velferð nemenda og brennandi áhugi fyrir framþróun í kennsluháttum svo og umbun í formi viðurkenningar, hróss og viðeigandi launakjara. Góður kennari má alveg vera skemmtilegur, en stundum hefur því verið kastað fram að ekki sé hægt að láta nemendur á grunnskólastigi meta kennarana því þá velji þeir bara skemmtilegustu kennarana og þá sem gefa þeim hæstar einkunnir burt séð frá raunverulegu framlagi nemenda. Ég hef meiri trú á nemendum en þetta og tel að nemendur að minnsta kosti á eldri stigum grunnskólans eigi að fylla út kennslumat tvisvar á vetri.
Virðing og stolt
Launabarátta stéttar sem byggir á lausum kjarasamningum, hástemmdum yfirlýsingum og verkfallsógn er ekki samboðin kennurum. Ég hef sjálf, oftar en einu sinni, verið í kennaraverkfalli. Það er ekki uppbyggilegt eða til þess fallið að auka virðingu stéttarinnar út á við eða stolt kennarans af starfi sínu. Verkfall er vond neyðaraðgerð sem skapar togstreitu og spennu. Vel launaðar stéttir sérfræðinga með fimm ára háskólanám eru ekki í verkföllum og öllu sem þeim fylgir með nokkurra ára millibili. Kennarar þurfa að losna úr hringrás stöðugrar kjarabaráttu.
Skólabarnið í forgang
Ágætu foreldrar! Að lokum er rétt að leggja áherslu á þetta sígilda við skólabyrjun; að stuðningur foreldra og forráðamanna við barnið, áhugi á daglegri líðan þess og einlæg hvatning eru afar mikilvægir þættir, einkum við breytingar eins og skólabyrjun. Einn besti stuðningur sem hægt er að sýna barni er einlægur áhugi. Spyrja, gefa sér tíma, horfa í augun og hlusta. Hlakkar barnið þitt til að byrja í skólanum? Af hverju eða af hverju ekki? Er eitthvað sem þarf að huga betur að eða vinna með?
Barnið þarf að finna að það skipti máli og upplifun þess sé mikilvæg. Læsi er einn af grunnþáttum menntunar en til að börn nái tökum á lestri þurfa þau mikla æfingu heima og í skólanum. Það getur verið snjallt að tengja lesturinn við samveru og spjall um lífið og tilveruna.
Tölum kennarastéttina upp, það er löngu tímabært. Það á við um foreldra, kennara sjálfa og alla orðræðu í samfélaginu. Ræðum á jákvæðum nótum um kennarana við barnið. Það er löngu tímabært að tala kennarastarfið upp og horfast í augu við að engin önnur stétt hefur jafn afgerandi mótunaráhrif á börnin.
Sigríður Hulda Jónsdóttir,
formaður skólanefndar grunnskóla Garðabæjar