Þrautseigja III

Þetta er þriðji og síðasti pistillinn um þrautseigju
Í þessum pistlum er athyglinni beint að einkennum þrautseigju, hvernig við getum aukið hana og þar með auðveldað okkur lífið.

Hvað er þrautseigja, hvernig birtist hún í eigin fari og verkefnum daglegs lífs? Örar breytingar eru hluti af nútíma vinnuumhverfi, geta til að aðlagast breytingum á vinnumarkaði og tileinka sér þrautseigju er talinn vera einn af lykilfærniþáttum í atvinnulífi á 21. öldinni. Um það verður fjallað sérstaklega í öðrum pistli.

Sjálfsstjórn, að mæta sjálfum sér, vöxtur
Sjálfsstjórn okkar, til dæmis á hugsunum, skapsmunum, einbeitingu og hegðun er lykilatriði í því hugarfari sem einkennist af þrautseigju. Segja má að mesta áskorun mannsins sé að hafa hugrekki til að mæta sjálfum sér – vilja til að takst á við sjálfan sig til vaxtar og aukins þroska. Í því felast tækifæri til dýpri farsældar og jákvæðra áhrifa. Slíka sjálfsvinnu þarf að stunda af kærleika í eigin garð og í góðu jafnvægi við sjálfsaga og auðmýkt.

Þanþol, viðhorf, aðlögun, viðnám
Þrautseigja kemur einnig fram í svokölluðu þanþoli, eða getu til að styrkjast í glímunni við erfiðleika eða mótlæti. Slík hæfni birtist meðal annars í því að einstaklingur lítur á krefjandi viðfangsefni sem ögrun, frekar en óleysanlegt vandamál. Hann aðlagast verkefninu á jákvæðan hátt og tekst á við það með andsvari eða markvissu viðnámi að hætti gerandans fekar en aðgerðarleysi fórnarlambsins. Hæfileiki okkar til gagnvirkni, þ.e. að bregðast við áskorun og ógn með viðspyrnu og jákvæðri aðlögun er hluti af þrautseigju. Með viðnámi er ekki átt við að setja sig í andstöðu, heldur leita skapandi lausna til að bæta stöðuna og styðja við framgang jákvæðra afla á hverjum tíma.

Samskipti, sjálfsvirði og sjálfstæði
Einstaklingur sem býr yfir þrautseigju er líklegur til að setja sig í spor annarra og vera í samskiptum sem einkennast af gagnkvæmri virðingu. Hann upplifir sig sjálfstæðan, gerir sér grein fyrir eigin virði og getu til að hafa áhrif á lífsgæði sín. Lausnamiðuð hugsun og yfirsýn skapar viðkomandi færni til að leysa vandamál og taka upplýstar ákvarðanir sem miða að farsæld og aukinni þrautseigju. Einstaklingur sem býr yfir þrautseigju veit að hann er áhrifavaldur í eigin lífi og hefur bjargráð og þrek til að fara í gegnum álag eða erfiðleika og koma til baka af styrk.

Andstætt við seiglu og þrautseigju
Því má segja að stjórnleysi, óþolinmæði, yfirgangur, skammsýni, agaleysi, ábyrgðarleysi, vanvirkni og mótþrói séu dæmi um þætti sem eru andstæðir þrautseigju og seiglu og leiða því ekki til farsældar eða lífshamingju. Pistlaröðin um þrautseigju er meðal annars byggð á greinum, rannsóknum og ritum eftirtalinna: Angel Duckworth, Carol Dweck, Werner, Benard, Wagnild, Daniel Goleman, David Palmiter, Meekhof, Seligman.

Sigríður Hulda Jónsdóttir