Þróunarsjóður grunnskóla Garðabæjar 2017

75 milljónir hafa verið settar í öflugt þróunarstarf grunnskóla Garðabæjar

Þróunarverkefnunum er ætlað að efla innra starf skólanna þannig að starfsmenn og nemendur njóti góðs af fjölþættu og framsæknu starfsumhverfi.

Nú er auglýst eftir umsóknum í Þróunarsjóð grunnskóla þriðja árið í röð. Sjóðurinn úthlutar árlega 25 milljónum til þróunarverkefna grunnskólanna þannig að með komandi úthlutun hafa alls 75 milljónir króna runnið til þróunarstarfs grunnskóla Garðabæjar. Á síðustu tveimur árum hafa alls 62 verkefni hlotið styrk eða um 30 verkefni á ári.

Efla innra starf skólanna
Þróunarverkefnin eru fjölbreytt og þau verkefni sem styrkt hafa verið snerta flesta fleti skólastarfsins. Styrkt hefur verið til misstórra verkefna, en stærstu styrkirnir hafa verið fjórar til fimm milljónir króna og þá er um að ræða verkefni sem allir grunnskólar bæjarins taka þátt í svo sem læsiverkefnið ,,Logos“ þar sem skimað er markvisst fyrir lestrarerfiðleikum og velferðarverkefni eins og verkefnið ,,Kynheilbrigði og velferð“.

Samvinna skóla og stofnana
Margar góðar umsóknir í sjóðinn endurspegla metnarðfullt starf grunnskólanna og því miður hefur ekki verið hægt að verða við öllum umsóknum sem berast hverju sinni. Allir grunnskólar í bænum hafa hlotið styrki og nokkuð mörg verkefni grundvallast á samstarfi grunnskólanna og/eða samstarfi skólastiga. Allmörg verkefnin hafa gefið svo góða raun að fleiri skólar í bænum taka upp sömu vinnubrögð, má þar nefna verkefnið ,,Vinaleiðin“, þar sem unnið er með jákvæð samskipti. Þróunarstjóðurinn gefur skólunum þannig tækifæri til að brydda upp á ýmsum nýjungum í starfi sem og að taka þátt í samstarfi í stærra samhengi má þar nefna vinnu Flataskóli í tengslum við Unicef og Garðaskóla í tengslum við breskan samstarfsskóla.

Menntadagur Garðabæjar
Síðastliðið haust var í fyrsta skipti haldinn Menntadagur Garðabæjar þar sem kennarar koma saman, kynna þróunarverkefnin sín, miðla af reynslunni og læra hver af öðrum. Þetta er nokkurs konar uppskerudagur og það var einstaklega ánægjulegt að taka þátt í honum og upplifa fagmennskuna og kraftinn sem einkennir kennarana okkar.

Aukin áhersla á upplýsingatækni og tengsl skóla og atvinnulífs
Áherslur þróunarsjóðsins hafa verið þær sömu undanfarin tvö ár en eru aðeins breyttar núna þar sem aukin áhersla er á upplýsingatækni í námi og tengsl skóla og atvinnulífs. Áfram er sterk áhersla á fjölbreytta kennsluhætti, velferð og vellíðan nemenda og innra mat. Úthlutað hefur verið úr sjóðnum tvisvar á ári en nú mun heildarupphæðin verða til úthlutunar í apríl þar sem ákveðið hefur verið að úthluta úr sjóðnum einu sinni á ári.

Ástríða í starfi
Framsæknir kennarar hafa möguleika á að finna nýjum hugmyndum sínum farveg í gegnum þróunarsjóðinn. Það er nauðsynlegt að hafa möguleika á nýbreytni í starfi, tækifæri til að þróa það sem betur má fara og rými til að sinna því. Slíkt eflir ástríðu í starfi og starfsánægju sem skapar grunn að öflugu starfsumhverfi.

Sigríður Hulda Jónsdóttir,
formaður skólanefndar