Þróunarsjóður grunnskóla Garðabæjar 2021

Vellíðan, samskipta- og vináttuþjálfun, tæknimiðaðir kennsluhættir, læsi.

Frá upphafi hefur sjóðurinn lagt ríka áherslu á að úthluta til verkefna sem efla vellíðan nemenda.

Auglýst hefur verið eftir umsóknum í þróunarsjóð grunnskóla í Garðabæ sjöunda árið í röð. Markmið sjóðsins er að stuðla að öflugu og framsæknu skólastarfi  í bænum og gefa fagfólki tækifæri til þess að sjá góðar hugmyndir verða að veruleika í starfi með börnum og ungmennum. Áherslur sjóðsins að þessi sinni felast meðal annars í neðangreindum þremur þáttum:

Vellíðan, samskipta- og vináttuþjálfun
Vellíðan, lífsgæði og árangur eru tengdir þættir. Sá sem býr yfir sátt í eigin garð, hefur traust á sjálfum sér til að takast á við verkefni lífsins og er í farsælum samskiptum er líklegri til árangurs í leik og starfi. Rannsóknir sýna að þetta er þáttur sem vert er að taka föstum tökum þar sem streitu-, álags- og kvíðamein hafa í auknum mæli neikvæð áhrif á lífsgæði og þar með árangur einstaklinga í nútíma samfélagi. Samskiptafærni er einn af lykilfærniþáttum í atvinnulífi á 21. öldinni og hefur bæði áhrif á vellíðan okkar og starfsmöguleika. Þar er meðal annars átt við getu og vilja til samvinnu, að setja sig í spor annarra, sýna hreinskiptni og virðingu sem skapar traust, beita lausnamiðuðu hugarfari og þrautseigju til að takast á við breytingar, óvissu og álag. Rannsóknir innan sálfræðinnar sýna að sterk náin tengsl við aðra manneskju auka vellíðan okkar og öryggi. Vinaleysi, einangrun eða einelti á barnsaldri og unglingsárum getur haft mikil neikvæð áhrif á líðan og sjálfsmynd og því eru verkefni sem snúa að vináttuþjálfun, samskiptum og vellíðan sérstaklega styrkt af sjóðnum.

Framsæknir og tæknimiðaðir starfs- og kennsluhættir
Í síbreytilegu samfélagi þurfa kennsluhættir að nýta og taka mið af tækniþróun. Lögð er áhersla á að styrkja verkefni sem hafa frumlega nálgun og miða að því að ná til ákveðinna nemenda eða hópa nemenda sem mætti virkja betur eða gætu notið sín betur í skólakerfinu. Skólakerfið hefur, eins og samfélagið allt, staðið frammi fyrir miklum áskorunum vegna heimsfaraldurs Kórónuveirunnar undanfarin misseri. Þar hefur meðal annars reynt á aðlögunarhæfni, sveigjanleika, lausnamiðað viðhorf, samvinnu og nýjar leiðir m.a. í kennsluháttum. Við úthlutun úr sjóðnum að þessu sinni er því horft til þess hvaða lærdóm má draga af þeim aðstæðum og lausnum sem fram hafa komið meðan á heimsfaraldri hefur staðið og hvort þar séu nýjungar sem innleiða mætti í skólastarfið til frambúðar.

Læsi
Auk áherslu á vellíðan nemenda hefur áherslan á læsi verið fyrirferðamikil við úthlutanir úr sjóðnum frá upphafi. Að tryggja læsi skólabarna er eitt af lykilhlutverkum grunnskólanna um leið og þjálfun í lestri teygir sig inn á heimilin. Hér er m.a. horft til mikilvægis þess samspils sem þarf að myndast milli heimalesturs og námsins í skólanum. Til að ná tökum á hlutunum þurfum við að ætla okkur tíma til þess að æfa okkur og þar er lesturinn engin undantekning. Ró og festa sem skapar ánægjulega upplifun í kringum lestur styður við áhuga og færni barnsins.

Með einlægri ósk um góðar stundir til allra Garðbæinga,

Sigríður Hulda Jónsdóttir,
formaður  skólanefndar grunnskóla og bæjarfulltrúi