Uppeldi til fjármálaábyrgðar

Ávinningur þróunarverkefna í grunnskólum Garðabæjar.
Fjármálalæsi er eitt af hæfniviðmiðum aðalnámskrár undir samfélagsgreinum og einnig mikilvægur þáttur í námi og menntun unglinga.

Þróunarsjóður grunnskóla Garðabæjar var stofnaður árið 2015 og hefur sl. 6 ár úthlutað yfir 100 milljónum til verkefna í grunnskólum Garðabæjar. Markmið sjóðsins er að stuðla að öflugu og framsæknu skólastarfi í bænum og gefa fagfólki tækifæri til að þróa fagsvið sitt í framsæknu stafi með börnum og ungmennum. Úthlutað hefur verið til yfir 100 verkefna sem snerta ýmsa fleti skólastarfsins auk hinna hefðbundnu námsgreina.

Árið 2018 var send spurningakönnun til fagfólks í grunnskólum bæjarins, til að fá álit þeirra á sjóðnum og áhrifum hans á skólastarfið. Samkvæmt þeirri könnun telja yfir 90% að áhrif sjóðsins á skólastarf í Garðabæ séu góð og sama hlutfall telur að styrkir sjóðsins auki tækifæri til starfsþróunar og framsækni i skólastarfi. Ávinningurinn sé öflugra skólastarf og fyrir nemendur og eftirsóttara starfsumhverfi.

Hér verður veitt innsýn í þróunarverkefni í Garðaskóla um fjármálalæsi.

Uppeldi til fjármálaábyrgðar – þróunarverkefni Garðaskóla
Fyrir rúmu ári fengu samfélagsgreinakennarar í Garðaskóla þróunarstyrk til að endurskoða kennsluhætti í fjármálafræði. Markmiðið var að efla fjármálafræðslu, bjóða upp á fjölbreytt nám m.a. með skipulagsbreytingum og sækjast eftir þekkingu utan skólans til að þróa verkefnið. Nemendur og foreldrar höfðu kallað eftir aukinni fjármálakennslu undanfarin ár og því ánægjulegt að geta komið til móts við þær óskir.

Skilningur, ábyrgð, samfélagsvitund
Þróunin fólst m.a. í því að skipulagi kennslunnar var breytt, hagnýtingargildi aukið svo og samþætting námsgreina. Kennslan var útfærð sem fjögurra vikna lota hjá nemendum í 10. bekk. Markmið kennslunnar var að auka skilning nemendum á eigin fjármálum, efla ábyrgð og ákveðna samfélagsvitund. Farið var yfir helstu fjármálahugtök, hvernig sameiginlegir sjóðir samfélagsins eru nýttir, hlutverk skatta og ólíka stöðu sem skapast við sparnaði eða lántöku.

Nemendur ánægðir með hagnýta kennslu
Óhætt er að segja að verkefnið hafi heppnast vel og var áhugi nemenda mikill. Í könnun sem lögð var fyrir alla nemendur í 10. bekk að lokinni kennslu kom í ljós að þetta var sú lota sem þeir töldu sig hafa langmest gagn af í daglegu lífi. Nemendur voru undantekningalaust ánægðir með þessa fræðslu og töldu sig hafa lært hluti sem munu gagnast þeim í framtíðinni. Að mati kennara þótti fræðslan ganga mun betur eftir endurskoðun á kennsluháttum.

Samþætting námsgreina
Með verkefninu skapaðist einnig samþætting samfélagsgreina og stærðfræði þar sem nemendur reikna t.d. út launaseðla og má segja að fjármálakennslan í samfélagsfræði hafi aukið skilning á tölulegum stærðum sem unnið var með í stærðfræði. Einnig fundur samfélagsgreinakennararnir mun meiri áhuga en áður hjá nemendum þegar kom að því að kenna um íslenskt velferðarsamfélag og rekstur opinberra stofnana eftir að hafa farið ítarlega í skattkerfið og opinber fjármál.

Niðurstaða
Fjármálalæsi er hluti af færni sem nauðsynleg er í samfélaginu til árangurs og vellíðunar. Með slíkri fræðslu skapast einnig skilningur á hvernig samfélagið og hagkerfið virkar. Ábyrgð á eigin fjármálum og samfélagsábyrgð styður við sjálfbærni einstaklingsins og samfélags því er mikilvægt að kveikja áhuga unglinga á viðfangsefninu.

Sigríður Hulda Jónsdóttir,
bæjarfulltrúi og formaður skólanefndar grunnskóla