Andlegur styrkur, vilji og kraftur
Hugtakið þrautseigja er notað um þá færni sem einstaklingur beitir þegar hann mætir mótlæti og/eða álagi í lífinu. Þrautseigja einkennist m.a. af andlegum styrk sem endurspeglast í viðhorfum okkar, venjum og vinnulagi á lífsgöngunni.
Þegar við tökum markvisst þá ákvörðun að efla eigin þrautseigju sköpum við vilja og kraft til að halda áfram í krefjandi aðstæðum.
Trú á eigin getu, yfirsýn, staðfesta
Trú á eigin getu til að mæta áskorunum er grundvallaratriði svo og styrkur til að hafa yfirsýn í flóknum aðstæðum. Staðfesta og úthald eru lykilþættir til að andlegt þanþol springi ekki eins og um kapphlaup sé að ræða heldur höfum við styrk til að halda utan um og efla eigið þrek, andlegt og líkamlegt í gegnum krefjandi tímabil.
Ástríða og vinnusemi
Þrautseigja og seigla eru ekki ný hugtök. Þessi hugtök og hvað þau innibera var til umræðu hjá forngrísku heimspekingunum Aristoteles og Platóni. Biblían fjallar um þennan styrk og William James (1842-1910) sem stundum er nefndur faðir bandarískrar sálfræði benti á að tengsl milli greindarvísitölu og árangurs væru ekki óyggjandi. Því væru fleiri þættir en greind sem hefðu áhrif á árangur. Þar bent hann á að þrautseigja sem felur í sér ástríðu og vinnusemi væri forsenda árangurs.
Þrjóska, dugnaður, þolinmæði, úthald, agi
,,Seigla er í einu orði þrjóska, dugnaður og þolinmæði. Óendanlega fallegt orð sem lýsir óbilandi krafti,“ segir á vef Háskóla Íslands þar sem rætt er um fallegustu orðin í íslenskri tungu. Fræðilegar skilgreiningar á þrautseigju og seiglu hafa breyst nokkuð í tímans rás. Í grundvallaratriðum er átt við úthald, aga og getuna til bregðast við og halda áfram. Að fara í gegnum krefjandi tímabil eða verkefni og geta brugðist við þeirri áskorun á þann hátt að unnt sé að viðhalda eða endurheimta styrk, lífsgæði og andlega heilsu, þrátt fyrir þrengingar eða mótlæti.
Færni, farsæld, lífsgæði
Þrautseigja kemur ekki í veg fyrir krefjandi tímabil eða áföll á lífsleiðinni, en góður skammtur þrautseigju er styrkur og færni sem birtist á marga vegu á flóknum tímum. Leiðaljós sem styður við getuna til að halda áfram farsælu lífi. Þrautseigja kemur heldur ekki í stað þess að leita aðstoðar sérfræðinga á erfiðum tímum sem er mikilvæg leið til lausnar og vaxtar. Þá styður það við þrautseigju að hafa góða rútínu, vinna með eigin tilfinningar, hreyfa sig reglulega, hvílast og nærast vel, auk þess að nýta auðlindir félagsskapar og náttúru til vellíðunar. Farsæld og hamingja byggja ekki á áfallalausu lífi sé það yfirleitt til. Við krefjandi aðstæður er eðlilegt að missa móðinn tímabundið en með því að rækta markvisst með sér þrautseigju verða þau tímabil styttri og rista ekki eins djúpt. Þrautseigja eykur þannig færi til farsældar og lífsgæða.
Sigríður Hulda Jónsdóttir