Einelti á aldrei að líðast
Viðtal við Sigríði Huldu Jónsdóttur, bæjarfulltrúa og formann skólanefndar í Garðapóstinum vegna eineltis og vellíðunar barna og ungmenna.
Nýlega kom upp alvarlegt eineltismál í Garðabæ, hvað vilt þú segja um það?
,,Við tökum þetta mál mjög alvarlega eins og við gerum með öll slík mál. Ég harma að þetta mál hafi komið upp og það sem þolandi þess og fjölskylda hafa þurft að líða. Það er óásættanlegt. Unnið hefur verið með málið eftir eineltisáætlun Garðabæjar síðan tilkynning barst. Óhörðnuð börn sem tengjast einelti sem þolendur, gerendur eða áhorfendur upplifa vanlíðan og kunna oft ekki aðferðir til að takast á við aðstæður, því er mikilvægt að grípa inní slík mál strax. Á heimsíðu Garðabæjar er að finna eineltisáætlun bæjarins, eyðublað til að tilkynna um einelti og frekari upplýsingar.
Hvað er verið að gera í þessu máli?
,,Skólanefnd hefur ákveðið eftirlitshlutverk og því hef ég sett mig í samband bæði við skólann og hagsmunaðila í því skyni að fá fram ýmis sjónarhorn á hvað betur hefði mátt fara til að við getum dregið lærdóm af málinu. Rétt er að það komi fram að mikil vinna er lögð í öll slík mál af eineltisteymum sem eru starfandi innan skólanna. Sjálandsskóli býr yfir miklum mannauð sem vinnur í slíkum málum og fær til liðs við sig utanaðkomandi aðila. Enn er verið að vinna með þetta tiltekna mál enda nokkrir sem tengjast því og mikilvægt að vinna faglega með öll börn sem tengjast eineltismálum á einhvern hátt og aðstandendur þeirra. Skólanefnd grunnskóla mun síðan á næsta fundi sínum fara yfir ferla og eineltisáætlun grunnskóla Garðabæjar meðal annars með hliðsjón af vinnslu, stöðu og lærdóm þessa máls. Eins og aðrir skólar í Garðabæ hefur Sjálandsskóli unnið með nemendum í vináttu- og félagsfærni, þeirri vinnu verður haldið áfram og er ætlað að efla félagshæfni og vera fyrirbyggjandi varðandi einelti.“
Hvernig er unnið með eineltismál í Garðabæ?
,,Allir grunnskólar í Garðabæ, íþróttafélög og aðrir aðilar sem bjóða upp á tómstundir fyrir börn og ungmenni vinna eftir eineltisáætlun Garðabæjar til að tryggja samræmd vinnubrögð í því skyni að fyrirbyggja og bregðast við einelti, bæta líðan og öryggi barna og ungmenna. Garðabær setur ákvæði í samninga við þá aðila sem eru styrktir af bænum (s.s. íþrótta- og tómstundafélög) um að viðkomandi aðili skuli starfa eftir eineltisáætlun bæjarins. Ef grunur leikur á eða staðfesting liggur fyrir að einelti eigi sér stað er það skýr stefna í eineltisáætlun Garðabæjar að tekið sé á málinu.“
Hvað á að gera ef grunur er um einelti?
,,Það er lykilatriði að tilkynna um einelti svo unnt sé að bregðast við. Hægt er að tilkynna með formlegum hætti á eyðublaði sem finna má á heimasíðu Garðabæjar auk þess er hægt að snúa sér til stjórnanda stofnunar/félagasamtaka eins og við á hverju sinn. Þegar einelti hefur verð tilkynnt er eineltisteymi viðkomandi stofunar t.d. skóla eða tómstunda- / íþróttafélags virkjað. Ef staðfestur grunur leikur á að barn verði fyrir einelti er haft samband við forráðamenn þess, aflað frekari upplýsinga og áætlun unnin í samráði við forráðamenn þolanda. Starfsfólk er upplýst, eftirlit aukið og unnið með bekkjar- og/eða liðsanda, rætt við valda aðila o.fl. Ef niðurstaðan er að vissulega sé um einelti að ræða eru skipulögð einstaklingsbundin viðtöl við þolanda, geranda/gerendur og forráðamenn þeirra. Í öllum tilvikum er geranda/gerendum gefin skýr skilaboð um að einelti sé ekki liðið. Skólinn (eða viðkomandi stofnun/félag) veitir viðeigandi íhlutun og stuðning við þolanda og geranda þar til máli lýkur og gerð er áætlun um eftirfylgd. Því miður sýnir reynslan okkur að sum mál taka sig upp að nýju og er það meðal þess sem við þurfum að skoða betur, rýna úrræði og leiðir til útbóta.“
Eru skólarnir í stakk búnir til að uppræta einelti?
,,Stjórnendur og starfsmenn skóla í Garðabæ hafa farið á ýmis námskeið m.a. hagnýta þjálfun hjá KVAN sem er fræðslu- og ráðgjafafyrirtæki sem veitir þjálfun í að vinna með hópa og einstaklinga í samskipta- og félagslegum vanda. Þar er meðal annars farið í gegnum þjálfun og viðbrögð við einelti. Verkferlar eineltisáætlunar eru einnig leiðbeinandi og hagnýtt verkfæri. Skólasamfélagið mun í ljósi þessa máls rýna þá verkferla og skoða hvernig hægt er að styrkja þá. Einelti fer ekki einungis fram í skólunum og þess vegna eru íþrótta- og tómstundfélög að vinna eftir sömu eineltisáætlun og grunnskólarnir. Einnig er samstarf við foreldra nauðsynlegt og allir þessir aðilar þurfa að vinna saman af vilja til að leysa eineltismál. Við öll sem tengjumst börnum beint eða óbeint, raunar við öll sem byggjum samfélagið, erum samábyrg um að skapa ramma og gildi sem styðja við virðingu og samlíðan í garð náungans. Foreldrar, grunnskólar, íþrótta- og tómstundafélög og íbúar samfélagsins skapa viðmið og öryggisnet þannig að gripið sé inní þegar þörf er á.“
Er einelti þá samfélagsmál?
,,Börnin okkar læra vissulega lífsgildi, hegðun og orðaforða af því sem fyrir þeim er haft, bæði á heimili, í snjalltækjum og vinahóp. Ræðum við börnin okkar, leiðbeinum þeim, sýnum ástúð og setjum mörk. Einelti viðgengst því miður einnig á vinnustöðum meðal fullorðinna og fer oft fram þar sem enginn sér til eða tekur eftir. Þess vegna er mjög áríðandi að allir þekki einkenni eineltis og temji sér gildi og framkomu sem vinnur gegn því, þannig verður hjálpsemi og náungakærleikur ofar pirring og átökum. Leggum öll okkar af mörkum til að fyrirbyggja og uppræta einelti. Til þess þarf samstillt átak, miðlun góðra lífsgilda, fræðslu og umræður um eineltismál og afleiðingar þeirra inn á heimilunum, í skólunum, á æfingum – í samfélaginu. Allir þurfa að sýna ábyrgð og virðingu og láta sig líðan annarra varða.“
Hvernig eflum við vellíðan barna?
,,Ég hef meðal annars skrifað nokkrar greinar um vellíðan barna og ungmenna síðastliðin ár, vegna þess að vellíðan er undirstaða árangurs og lífsgæða. Allir grunnskólar Garðabæjar leggja með margvíslegum hætti áherslu á vellíðan og velferð nemenda sinna. Þróunarsjóður hefur úthlutað yfir 135 milljónum til verkefna innan skólanna og sett vellíðan nemenda sem lykiláherslu við úthlutun undanfarin ár. Verkefnið Velferð barna og ungmenna í Garðabæ er dæmi um öflugt samstarfsverkefni allra skólastofnanna bæjarins og nærsamfélagsins s.s. íþrótta- og tómstundafélaga þar sem markmiðið er að bregðast við með samhæfðu verklagi og samstarfi stofnana og félagasamtaka ef grunur kviknar um ofbeldi, vanrækslu eða áhættuhegðun hjá barni undir 18 ára aldri. Þá má einnig nefna að nýlega samdi bæjarfélagið við tvö sálfræðifyrirtæki sem veita ungmennum sem glíma við kvíða sérstaka aðstoð en kannanir sýna að kvíði er vaxandi meðal ungmenna á landsvísu.“
Einhver orð að lokum?
,,Einelti er grafalvarlegt og á aldrei að líðast, það hefur mikil áhrif á líðan og sjálfsmynd þess sem fyrir því verður og einnig þeirra sem því beita. Við Garðbæingar kjósum að lifa í heilbrigðu og öruggu samfélagi og höfum oftsinnis sýnt að við erum tilbúin að leggja okkar af mörkum til að svo sé. Verum samtaka og leggjum öll eitthvað af mörkunum, vöndum okkur í umræðunni, verum fyrirmyndir. Verum vakandi gagnvart samskiptum og líðan barna okkar og ungmenna, sýnum aðgát og ákveðni. Tökum samtalið við börnin okkar og aðra foreldra, tengjum okkur saman eins og við kunnum svo vel og leysum mál sem upp koma. Stöndum saman, stöndum vörð um vellíðan barnanna okkar – allra.“ eru lokaorð Sigríðar Huldu.
Garðapósturinn þakkar kærlega fyrir samtalið og við tökum undir með henni að allir þurfa að leggjast á eitt að uppræta einelti.