Skólabyrjun 2020

Grunnskólar Garðabæjar tóku á móti nemendum sínum mánudaginn 24. ágúst sl. Í bænum starfa átta grunnskólar, sex þeirra eru reknir af bænum en tveir sjálfstætt starfandi. Nú eru ríflega 2500 grunnskólanemendur innritaðir í 1.- 10. bekk, þar af eru um 240 börn að hefja nám í 1. bekk.

Líðan og árangur
Vellíðan, öryggi og áhugi eru lykilþættir árangurs í námi sem starfi. Á óvissutímum undanfarna mánuði vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar er nauðsynlegt að tryggja nærveru, alúð og sterka tengingu við börn. Gefa þeim færi á að setja hugsanir sínar og ef til vill ótta í orð þannig að hægt sé að skapa öryggi og vellíðan þrátt fyrir áskoranir. Sýnum börnunum áhuga og setjum okkur inní upplifun þeirra á aðstæðum, verkefni þeirra í skólanum og félagstengsl. Það er líklegt að vilji barns til að standa sig vel í námi aukist ef það finnur áhuga hinna fullorðnu á viðfangsefnum þess og tilveru.

Skólastarf á tímum heimsfaraldurs
Á liðnum vormánuðum stóðum við öll frami fyrir nýjum áskorunum vegna kórónuveirunnar sem kölluðu á þrautseigju, lausnamiðað hugarfar og aðlögunarhæfni. Við þessar aðstæður kom vel  í ljós sá metnaður og það öfluga skólastarf sem er til staðar í grunnskólum Garðabæjar. Öllum grunnskólunum tókst að fylgja kennsluáætlunum og ljúka þeim markmiðum sem lágu til grundvallar í kjarnagreinum skólaársins. Það reyndi á hæfni starfsfólksins sem leysti oft á tíðum flókin verkefni með nýjum og áður óþekktum leiðum. Það er magnað hverju hægt er að koma í framkvæmd þegar allt skólasamfélagið gengur í sömu átt. Með einstökum stjórnendum og starfsmönnum grunnskólanna, foreldrum sem fylgdu leiðbeiningum sem settar voru og æðrulausum nemendum náðist að ljúka skólaárinu með sóma miðað við aðstæður. Það er mikið þakkarefni.

Nokkrar sviðsmyndir hugsanlegar í skólastarfi
Undirbúningur skólaársins tekur mið af þeim óvissutímum sem við lifum nú á. Byggt er á reynslu frá vormisseri og ganga þarf út frá nokkrum hugsanlegum sviðsmyndum í starfinu sem byggja á aðstæðum hverju sinni, þar sem ráðleggingum Almannavarna er fylgt í einu og öllu. Skólastarfið mun vonandi ganga nokkuð hnökralaust, en skólasetningar og kynningarfundir taka á sig aðrar myndir þar sem takmarka þarf aðkomu foreldra og fjölda annarra gesta í skólahúsnæðum. Hver skóli sendir sínar leiðbeiningar til foreldra. Framundan er án efa lærdóms- og árangursríkt skólastarf.

Sí- og endurmenntun
Sí- og  endurmenntun kennara er hluti af starfinu. Þrátt fyrir að fresta hafi þurft nokkrum námskeiðum nú í ágúst vegna reglna um fjöldatakmarkanir hafa verið haldin fjölbreytt endurmenntunarnámskeið fyrir kennara og annað starfsfólk svo sem: Uppeldi til ábyrgðar, Skyndihjálp, Að kenna nemendum með Asperger, Vaxandi hugarfar, Leiðsagnarmat, ,,Ég er unik“, Útikennslunámskeið, Námsáætlanir og endurmat, Upplýsingatækni, Smáforrit og forritun og Uppbygging sjálfsaga.

Á síðastliðnu skólaári fóru flestir kennarar í Garðabæ á námskeiðið Verkfærakistan á vegum KVAN. Nýir kennarar í bænum munu fara á slíkt námskeið í vetur og sjá skólarnir um að viðhalda þekkingu starfsmanna sinna og senda nýja starfsmenn á námskeið hjá KVAN.Hér er um að ræða hagnýtt námskeið fyrir kennara og annað fagfólk til að vinna með fjölbreytilegar þarfir hópa og einstaklinga, þá ekki síst þeirra sem glíma við samskipta- og félagslegan vanda. Hjá skólunum verður áframhaldandi áhersla á leiðsagnarmat, vaxandi hugarfar og leiðbeinandi kennsluhætti. 

Helstu framkvæmdir
Framkvæmdir hafa staðið yfir við nokkra skóla bæjarins.
– Í sumarbyrjun fékk Álftanesskóli afhenta nýja og glæsilega 1500 fm viðbyggingu við skólann. Með þessari stækkun fá nemendur matsal sem einnig nýtist sem hátíðarsalur auk þess sem aðstaða starfsfólks er verulega bætt s.s. kaffistofa og skrifstofur.
– Þá hefur verið skipt um gólf í íþróttahúsinu á Álftanesi. Unnið hefur verið að endurbótum í íþrótthúsinu Mýrinni, bæði íþróttasal og sundlaug.
– Í Flataskóla er nú unnið að því að laga aðstöðu á skólalóðinni en þess má vænta að framkvæmdum ljúki eftir miðjan september. Með tilkomu hringtorgs á Vífilsstaðavegi mun aðgengi að skólanum fyrir umferð verða greiðara. Framkvæmd hringtorgsins gengur vel og hafa verktakar lagt allt kapp á að vera búnir með sem mest fyrir skólabyrjun. Gönguleiðir verða tryggðar að skólanum með girðingum ef þarf.
– Í Urriðaholtsskóla er verið að standsetja list- og verkgreinas tofur.

Sumaropnun tómstundaheimila
Sumaropnun tómstundaheimila grunnskólanna hófst í vikunni fyrir skólasetingu, en markmiðið með þessari þjónustu er að auðvelda nemendum sem koma úr leikskóla aðlögun að því að hefja nám í grunnskóla. Þar býðst öllum verðandi nemendum í 1. bekk að mæta nokkrum dögum fyrir skólabyrjun til  að kynnast skólanum og umhverfi hans. Þessi tenging frá leikskóla yfir í grunnskóla auðveldar nemendum að hefja nám á nýju skólastigi.

Skólabarnið í forgang
Setjum skólabarnið okkar í fyrsta sæti  – sér í lagi næstu vikurnar. Sköpum gleði og festu í kringum skólabyrjun og tryggjum þannig að það sé skemmtilegt að byrja í skólanum að loknu sumarfríi.

Sigríður Hulda Jónsdóttir
formaður skólanefndar grunnskóla Garðabæjar