Áhugaverðar umræður á opnum fundi skólanefndar
Um fjörutíu manns mættu á opinn fund skólanefndar sem haldinn var þriðjudaginn 23. maí 2017 í Flataskóla. Sigríður Hulda Jónsdóttir formaður skólanefndar stýrði fundinum.
Með opnum fundi er bæjarbúum veittur aðgangur að nefndarstörfum og umræðum um málaflokkinn, innsýn í vinnulag nefndarinnar og tækifæri til að hitta fulltrúa hennar. Fundurinn bar yfirskriftina ,,Skiptir skólakerfið þig máli?“ og fjallað var um gildi menntunar í samfélaginu, hvernig menntun hefur áhrif á lífsgæði og þróun samfélagsins og hvernig skólastarfið getur mætt því sem framtíðin ber í skauti sér.
Hvernig sköpum við þekkingarsamfélag?
Fundurinn hófst á hefðbundnum nefndarstörfum. Tveir fyrirlesarar voru á fundinum sem voru þau Jón Torfi Jónasson prófossor við Háskóla Íslands og Kristrún Mjöll Frostadóttir hagfræðingur hjá Verslunarráði Íslands. Erindi Kristrúnar bara nafnið ,,Hvað skapar þekkingarsamfélag?“. Hún fjallaði um hvernig þekkingarkjarnar skapast í samfélögum og helstu einkenni þeirra sem eru meðal annars hátt menntunarstig og samþjöppun tekna. Kristrún fjallaði einnig um mikilvægi þess fyrir samfélagið að laða að mannauð og skapa hámenntuðum einstaklingum tækifæri við hæfi. Gildi menntunar er lykilþáttur í uppbyggingu samfélagsins.
Hvað á að kenna í skólunum?
Jón Torfi Jónasson velti upp spurningunni ,,Hvers krefst framtíðin af skólakerfinu?“ Jón Torfi ræddi um inntak menntunar og þá áskorun að undirbúa nemendur fyrir framtíð sem er í stöðugri þróun. Hvað kennt er í skólum og hvers vegna, er spurning sem við þurfum að velta fyrir okkur. Jón telur að leggja þurfi aukna áherslu á samskipti, fjármálalæsi og forritun samhliða tengingu við rætur og menningu þjóðarinnar. ,,Skólinn getur búið nemendur undir framtíðina þó svo að við þekkjum ekki öll þau störf sem þar munu skapast en það er áskorun sem við þurfum að mæta“, segir Jón Torfi.
Opnum fundi skólanefndar lauk á fyrirspurnum fundarmanna til fyrirlesara og almennum umræðum. Fundarmenn voru sammála um það að fundurinn var gott innlegg í umræðuna um þróun og mikilvægi menntamála.
Sigríður Hulda Jónsdóttir formaður skólanefndar grunnskóla Garðabæjar
Í skólanefnd grunnskóla Garðabæjar eru fimm kjörnir fulltrúar auk fulltrúa skólastjóra, kennara og foreldra. Fundina sitja einnig forstöðumaður fræðslu- og menningarsviðs og deildarstjóri skóladeildar. Í skólanefnd eru nú: Sigríður Hulda Jónsdóttir formaður, Jóhann Steinar Ingimundarson varaformaður, Kjartan Örn Sigurðsson aðalmaður, Hildur Jakobína Gísladóttir aðalmaður, Hlíf Böðvarsdóttir aðalmaður, Brynhildur Sigurðardóttir fulltrúi skólastjóra, Guðrún Ólafía Þorleifsdóttir fulltrúi kennara, Berglind Guðrún Bragadóttir fulltrúi foreldra, Margrét Björk Svavarsdóttir forstöðumaður fræðslu- og menningarsviðs, Katrín Friðriksdóttir deildarstjóri skóladeildar.