Hamingja og þakklæti

Hvað hefur þú að þakka fyrir?
Rannsóknir sýna að ef við ástundum þakklæti er líklegt að vellíðan okkar aukist. Að velja markvisst að beina sjónum að því sem er þakkarvert, jafnvel skrá það í þakkardagbók, styður við meðvitaðri upplifun á jákvæðum þáttum í eigin lífi.

Slík upplifun getur aukið ánægju með eigin tilveru og kallað fram hamingjutilfinningu. Þá erum við líklegri til að endurtaka það sem skapar þessa tilfinningu og auka þannig vægi ánægjulega þátta í daglegu lífi. Hvað hefur þú að þakka fyrir í dag?

Hverjum hrósaðir þú í dag?
Ein leið til að sýna þakkæti er að hafa orð á því vel er gert og snýr að okkur. Með framkomu okkar og áhrifum í daglegu lífi getum við valið að efla vellíðan og vöxt annarra eða láta það ógert. Hverjum hrósaðir þú í dag? Kannski unglingnum á kassanum í búðinni, manninum á bensínstöðinni sem aðstoðaði þig með rúðuþurrkuna, stelpunni í ísbúðinni, samstarfsfélaga þínum sem gott er að vinna með eða kennaranum sem leggur sig daglega fram um að barninu þínu líði vel í skólanum? Venjum okkur á að sýna þakklæti og hrósa alltaf þegar tilefni er til, ekki bara til þess að hrósa heldur til að hafa orð á því sem er þakkarvert. Láta það ekki líða hjá. Í daglegu lífi sköpum við okkur vana, bæði í hegðun, samskiptum og viðhorfum. Höfum áhrif – höfum orð á því sem vel er gert, eins og; takk fyrir frábæra þjónusta; vel gert; þakka þér kærlega fyrir að leggja þig svona vel fram.

Hefur þú hrósað þeim sem þér þykir vænt um í dag?
Hvenær hafðir þú síðast orð á því sem vel var gert hjá þínum nánustu? Barninu þínu, maka, foreldri, systkini, vini eða vinkonu? Þegar við hrósum erum við að styrkja þá framkomu sem við hrósum fyrir, festa hana í sessi. Þannig aukum við líkurnar á að tiltekin hegðun verði endurtekin. ,,Ég tek eftir því hvað þú ert dugleg/ur að skipuleggja þig í prófunum, þú stendur þig vel og ég er stolt/ur af þér“ er setning sem hvetur unglinginn áfram, veitir tiltrú, hvatningu og viðurkenningu. ,,Þú ert snillingur að elda“ getur ýtt undir aukna takta makans í eldhúsinu, hver hefur á móti því?

Tekur þú vel á móti hrósi?
Höfnum ekki þakklæti eða hrósi sem er beint til okkar. Þökkum fyrir og látum það ylja okkur, hvetja og gleðja. Ef við segjum ,,Æ, þetta er nú bara gömul peysa sem ég keypti á útsölu“ eða ,, ég hefði nú átt að vera löngu búin/n að gera þetta“ þá erum við að lítilsvirða hrósið, þann sem hrósar og okkur sjálf. Segjum heldur ,,Gaman að heyra, takk fyrir“. Sýnum því sem vel er gert þakklæti og virðingu og styðjum þannig við vellíðan, vöxt og framfarir.

Sigríður Hulda Jónsdóttir