Skólabyrjun 2021

Fagmennska og metnaður

Grunnskólar Garðabæjar tóku á móti nemendum sínum þriðjudaginn 24. ágúst sl. og kennsla hófst samkvæmt stundaskrá 25. ágúst. Í bænum starfa átta grunnskólar, sex þeirra eru reknir af bænum en tveir sjálfstætt starfandi. Nú eru 2550 grunnskólanemendur innritaðir í 1.- 10. bekk, sem er lítilleg fjölgun frá síðasta ári.

Metnaður, þrautseigja, fagmennska og lausnamiðuð nálgun
Síðastliðið skólaár verður líklega lengi í minnum haft hjá okkur öllum. Starfsfólki grunnskólanna í Garðabæ tókst af metnaði og eljusemi að haldi úti öflugu skólastarfi, fylgja kennsluáætlunum og ljúka þeim markmiðum sem voru til grundvallar í öllum greinum grunnskólans. Það kom vel í ljós hve öflugt skólastarf í grunnskólum Garðabæjar er þegar leiða þurfti starfið á tímum heimsfaraldurs. Mikill metnaður, fagmennska, þrautseigja og lausnamiðuð nálgun einkenndi starfið á þeim fordæmalausu tímum sem við stóðum frammi fyrir. Því ber að þakka vel unnin störf, hæfni og seiglu skólastjórnenda, kennara og alls starfsfólks skólanna sem hvað eftir annað þurfti að finna nýjar leiðir til að sameina sóttvarnir, námsframvindu, öryggi og vellíðan.

Starfsfólk, nemendur og foreldrar gengu í takt
Það reyndi á allt skólasamfélagið. Stjórnendur og starfsmenn allra skólastiga og frístundastarfs hafa nú í farteskinu gríðarlega þekkingu á skipulagi skóla og frístundastarfs á farsóttartímum. Starfsfólk, nemendur og foreldrar gengu í takt. Það er magnað hverju hægt er að koma í framkvæmd þegar samtakamátturinn er sterkur. Enn á ný erum við í þeim sporum að hefja skólastarf þar sem reynir á samtakamátt og þrautseigju okkar allra. Starfsmenn skólanna skipuleggja nú skólastarf þar sem gætt verður að sóttvörnum í hvívetna, allt kapp lagt á að halda starfseminni órofinni og minnka líkur á því að margir nemendur og kennarar þurfi að fara í sóttkví eða jafnvel einangrun. Skólasetningar verða með öðru sniði en við eigum að venjast og hver og einn einstaklingur sem fer í inn í húsnæði skólanna þarf að gæta að persónulegum sóttvörnum.

Þróun og framsækni
Allir grunnskólar í Garðabæ eru sífellt í þróunarstarfi þar sem kennsluhættir og innra starf er í endurskoðun og umbreytingu til hins betra. Þróunarsjóður grunnskólanna styður við slíkt starf með árlegri úthlutun til fjölbreyttra verkefna. Nokkur dæmi um framsækni og þróun í starfi grunnskólanna eru rakin hér að neðan.

Markvissir samráðsfundir til að leita lausna vegna málefna nemenda
Á síðastliðnu skólaári fékk Flataskóli úthlutað styrk úr Þróunarsjóði grunnskóla Garðabæjar vegna verkefnis sem ber yfirskriftina Markvissir samráðsfundir til að leita lausna vegna málefna nemenda. Stjórnendur í fimm grunnskólum í Garðabæ taka þátt í verkefninu. Margar nýungar verða í skólastarfinu vegna þessa þróunarverkefnis og má þar nefna, námsmat og námsáætlanir sem breytast í takt við nýjar áherslur, nokkrir kennarar fara á námskeið í Háskóla Íslands þar sem þeir fá þjálfun í að verða leiðtogar í innleiðingu leiðsagnarnáms.

Hæfnimiðað námsmat, skapandi starf og vellíðan, fjölbreyttir kennsluhættir
Í Hofsstaðskóla verður lögð áhersla á innleiðingu á hæfnimiðuðu námsmati sem hefur verið í þróun síðast liðið ár, uppeldi til ábyrgðar og unnið úr ytra mati sem skólinn fór í gegnum á vormánuðum. Þá má nefna að Skapandi starf og vellíðan verða í fyrirrúmi í Sjálandsskóla þar sem lögð er áhersla á útikennslu, fjölbreytta kennsluhætti og leiðsagnarmat sem verður leiðarsljós skólastarfsins í vetur. Í Álftanesskóla verður lögð sérstök áhersla á Uppeldi til ábyrgðar og leiðsagnarmat. Urriðaholtsskóli er í ýmsum þróunarverkefnum og skipar læsisverkefni þar stærstan sess enda viðamikið verkefni.

Uppbygging sjálfsaga, lýðræði og þátttaka nemenda
Garðaskóli leggur áherslu á bættan skólabrag og heilsusamlegri skóla. Liður í þeirri innleiðingu er endurinnleiðing á stefnunni Uppbygging sjálfsaga í víðum skilningi. Þá ætlar skólinn að taka stór skref í átt að auknu nemendalýðræði og stefnir að því að vera í fremstu röð á því sviði eftir nokkur ár. Það er til dæmis gert með því að taka inn fulltrúa nemenda í fjölmargar nefndir og teymi, s.s. jafnréttisnefnd, umhverfisnefnd o.s.frv. Í Garðaskóla er einnig Lýðræðisnefnd sem er teymi þar sem nemendur og starfsfólk ræða hvernig er hægt að auka nemendalýðræði í skólanum.

Símenntun: Félagsfærni, umburðarlyndi, virðing, umhyggja og hugrekki
Árlega eru haldin sameiginleg námskeið grunnskólanna í Garðabæ. Að þessu sinni tengjast þau forvarnaverkefnum sem unnin eru í grunnskólum bæjarins. Þar má nefna Vinátta sem er forvarnarverkefni Barnaheilla gegn einelti og er fyrir nemendur í 1.-4 bekk. Þá verður haldið leiðtoganámskeið á vegum KVAN fyrir kennara sem miðar að þjálfun fyrir nemendur í 5.-10. bekk til að öðlast aukinn styrk, jafnvægi og sjálfstraust. Í öllum skólunum verður lögð áhersla á að vinna með forvarnverkefni sem efla félagsfærni, umburðarlyndi, virðingu, umhyggju og hugrekki. Í vetur munu allir skólastjórnendur grunnskólanna sækja námskeið í Þjónandi forystu.

Framkvæmdir
Ýmsar framkvæmdir eru við grunnskóla bæjarins. Sem dæmi má nefna að unnið hefur verið með skólalóð Flataskóla þar sem norðurlóðin er endurnýjuð bæði dren og yfirborð, sett upp ný hjólastæði og klifurveggur á svæðinu sem endurnýjað var í fyrra. Verklok eru áætluð um miðjan september. Einnig hefur verið unnið með skólalóð Urriðaholtsskóla, leiksvæði var stækkað, settur upp nýr kastali og kofar ásamt undirlagi. Unnið er að gerð útboðsgagna vegna næsta áfanga Urriðaholtsskóla. Í Garðaskóla hefur kaffistofa starfsmanna verið endurnýjuð og unnið að almennu viðhaldi s.s. skipt um glugga og flísar endurnýjaðar á jarðhæðinni.

Skólabarnið í forgang!
Setjum skólabarnið okkar í fyrsta sæti – sér í lagi næstu vikurnar. Sköpum gleði og festu í kringum skólabyrjun og tryggjum þannig að það sé skemmtilegt að byrja í skólanum að loknu sumarfríi.

Sigríður Hulda Jónsdóttir
bæjarfulltrúi og formaður skólanefndar grunnskóla Garðabæjar