Menntadagur Garðabæjar 2019

Kynningar á yfir 40 fjölbreyttum þróunarverkefnum skólanna í bænum

Menntadagur Garðabæjar hefur fest sig í sessi sem fróðlegt og skemmtilegt stefnumót skólafólks í Garðabæ. Dagurinn var haldinn í fjórða skiptið sl. föstudag 25. október 2019, en þá koma saman starfsmenn allra leik- og grunnskóla í Garðabæ.

Kennarar og aðrir sérfræðingar kynna fjölbreytt þróunarverkefni sem hafa verið styrkt úr þróunarsjóðum leik- og grunnskóla Garðabæjar, meistaraverkefni eru kynnt, kennarar Fjölbrautaskólans í Garðabæ fjalla um nýjungar í kennsluháttum, auk þess sem settir eru upp sýningabásar og veggspjöld þar sem nýjungar og þróunarstarf er kynnt. Erlendur sérfræðingur fjallaði um áskoranir og leiðir í námsferlinu og bauð upp  á vinnustofur fyrir leiðtogahópa.

165 milljónir til þróunarverkefna í leik- og  grunnskólum skapa framsækni
Í Garðabæ er fjöldi af fjölbreyttum og framsæknum þróunarverkefnum á leik- og grunnskólastigi. Þróunarsjóðir hafa síðastliðin fimm ár úthlutað samtals 165 milljónum til leik- og grunnskóla og skapað kennurum og öðrum sérfræðingum skólanna aukna möguleika til að vinna á framsækinn hátt á eigin fagsviði. Þróunarverkefnin efla því bæði sérfræðingana í skólum sem vinna verkefnin, námsupplifun nemenda og skólasamfélagið okkar.

Þróunarsjóður skapar nýbreytni og fjölbreytileika  
Meðal verkefna sem kynnt voru að þessu sinni eru: Velferð barna í Garðabæ, Nemandi dagsins; Jákvæð samskipti, Réttindasmiðja- og fræðsla, Heilsueflandi vinnustaðir, Shake it  down-shake it up, Hljóðakennsla með stýrðum fyrirmælum, Ævintýraferðir, Forritun, hönnun og lífsleikni, Út fyrir kassann, Vinur okkar Lubbi, PlastPlan endurvinnslustöð, Nemendamiðuð verkefni, Sköpun, Reading Plus lesskilningsverkefni, Ritunarkennsla, Notun snjallforrita við tónsköpun, Endurgjöf nemenda, Nemendalýðræði, Atvinnutengt  nám, Stærðfræði og rúmskynjun, Skapandi samstarf list- og verkgreina, Vaxandi hugarfar, Bernskulæsi, Leiðsagnarmat í stærðfræði, Gagnvirk verkefni með lestrarefninu.

Mikilvægi skólaþróunar
Skólastarf í Garðabæ er metnaðarfullt og sérfræðingarnir í skólunum okkar framsæknir fagmenn. Skólastarf þarf að vera í þróun þar sem það mætir sífellt nýjum áskorunum í breytilegu samfélagi. Stolt af sterkum hópi metnaðarfullra sérfræðinga í skólunum okkar er mér efst í huga eftir frábæran Menntadag Garðabæjar.

Eiríkur Björn Björgvinsson forstöðumaður fræðslu- og menningarsviðs Garðabæja og Sigríður Hulda Jónsdóttir formaður skólanefndar grunnskóla Garðabæjar

Til hamingju með framsækin þróunarverkefni, skólafólk í Garðabæ!

Sigríður Hulda Jónsdóttir,
formaður skólanefndar grunnskóla

.