Skólahald með breyttu sniði

Sköpum öryggi og hlúum að börnum og ungmennum

Festa, gott dagsskipulag, umhyggja og samvera nánustu eru lykilþættir á óvissutímum sem skapa oft óöryggi.

Stjórnendur og starfsmenn grunn- og leikskóla í Garðabæ eiga hrós skilið fyrir að hafa unnið hörðum höndum að því að skipuleggja skólastarfið sem best á óvissutímum. Á lausnamiðaðan hátt og með jákvæðni að leiðarljósi eru fundnar leiðir til mæta öryggi og hagsmunum barna og ungmenna, fjölskyldna og samfélagsins. Foreldrar og forráðamenn eru þó í lykilhlutverki varðandi vellíðan, festu og heimanám barna  sinna nú sem áður.

Allir nemendur komi daglega í skólann
Skólastarf með breyttu sniði hefur gengið vel í Garðabæ það sem af er og ber að þakka skólastjórnendum og starfsmönnum öllum sem hafa nálgast verkefnið á lausnamiðaðan og jákvæðan hátt. Hér í Garðabæ er lögð áhersla á að allir nemendur komi í skóla á hverjum degi. Viðvera í skóla er ólík milli aldurshópa og aðeins breytileg innan þeirra eftir skólum.

Yngstu börnin með mestu viðveru
Meginlínan í skólahaldi í Garðabæ er að veita yngstu börnunum sem mesta skólavist. Eldri nemendur mæta einnig daglega í skólann en dvelja þar skemur og vinna meira heima en þeir sem yngri eru. Nemendum er forgangsraðað í síðdegisvistun eftir aldri þannig að þau yngstu ganga fyrir. Skipulagið sem skólarnir starfa eftir er vissulega háð því að starfsmenn haldi heilsu og geti mætt til vinnu og getur því tekið breytingum ef veikindi starfsmanna koma til.

Sköpum festu og  öryggi
Á tímum óvissu er mikilvægt að skapa festu og öryggi með góðu dagsskipulagi, upplýsingum og samtali. Við vitum ekki hve lengi þessar breytingar vara og jafnvel er erfitt að segja fyrir um hvort frekari breytingar séu í farvatninu. Það sem við vitum þó er nauðsyn þess fyrir okkur hvert og eitt að styðja við eigin styrk og rósemd. Þannig sköpum við börnum okkar öryggi, betri aðstæður til umönnunar og auðveldum þeim að stunda námið. Tölum við börnin okkar á  jákvæðan og ábyrgan hátt um stöðuna og skólastarfið, öflum okkur upplýsinga ef við upplifum skort á þeim.

Verum til staðar fyrir börnin okkar
Hægjum á okkur og einbeitum okkur að nánd og samveru, verum til staðar og sköpum börnum öryggistilfinningu. Þau upplifa líðan okkar sterkar en orð okkar, veljum að vera fyrirmyndir þannig að þau læri að efla með sér seiglu og úthald. Margir eru nú að vinna heima og hugsanlega er hægt  að tengja vinnuna við heimanám þannig að það séu ,,vinnu- og námslotur“ á heimilinu yfir daginn og svo hlé og samvera á milli. Látum börnin okkar finna að þau tilheyra kærleiksríkri fjölskyldu og ábyrgu samfélagi sem kemst í gegnum álag.

Persónulegur stöðugleiki
Á óvissutímum hjálpar okkur að velja viðhorf og hugsanir sem skapa innra öryggi og persónulegan stöðugleika. Til dæmis felst vöxtur í því að taka meðvitaða ákvörðun um að efla með sér seiglu og styðja við aðra. Samkvæmt rannsóknum eru leiðir til að efla seiglu nokkrar, s.s. að hugsa til lengri tíma en taka þó einn dag fyrir í einu, leitast við að hafa ákveðna stjórn á eigin tilfinningum og hugsunum þannig að við veljum skynsemi og lausnamiðað hugarfar. Rútína skapar festu og styður við seiglu og vellíðan, þá er gott að setja á dagskrá það sem veitir ánægju en ögrar ekki örygginu, gefa sér tíma í að rækta líkama og félagsskap jafnvel í gegnum fjarskiptabúnað.

Hjálpumst að, verum skynsöm, ábyrg en bjartsýn. Tökum einn dag í einu og styðjum við börnin okkar með því að velja að efla eigin styrk og þrautseigju. Lóan er komin og sól hækkar á lofti.

Sigríður Hulda Jónsdóttir, formaður skólanefndar grunnskóla